Jafnvægi í rekstri Borgarbyggðar – fjárhagsáætlun 2012

desember 13, 2011
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti fjárhagsáætlun árins 2012 á fundi sínum 8. desember s.l., en áætlunin hafði verið tekin til fyrri umræðu 17. nóvember. Á milli umræðna var unnið að því að draga úr þeim 45 milljóna halla sem var á rekstarniðurstöðu við fyrri umræða og skilaði sú vinna þeim árangri að við síðari umræðu var tillagan lögð fram með tekjuafgangi.
 
Í forsendum fjárhagsáætlunar Borgarbyggðar er gert ráð fyrir að útsvarstekjur hækki á árinu 2012 sem og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en tekjur af fasteignaskatti hækki fyrst og fremst vegna hærra fasteignamats. Áætlað er að skatttekjur sveitarfélagsins hækki um 8 % á milli ára og verði 1966 milljónir.
 
Álagningarprósenta fasteignaskatts og lóðaleigu verður óbreytt að öðru leyti en því að álagningarprósenta fasteignaskatts í c.flokki sem er fyrst og fremst atvinnuhúsnæði hækkar úr 1.45% í 1.50%. Þrátt fyrir þessa hækkun er álagningarprósentan í Borgarbyggð töluvert undir landsmeðaltali sem var 1.62% árið 2011 í þessum flokki samkvæmt upplýsingum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þjónustugjöld hækka yfirleitt um 5% eða í samræmi við neysluverðsvísitölu. Leikskólagjöld hækka um 3% en skólagjöld í tónlistarskóla hækka um 10% í janúar og munu síðan hækka aftur fyrir haustönn 2012.
Niðurstaða á rekstri Borgarbyggðar verður jákvæð um 1.7 milljón samkvæmt áætlun árins 2012. Framlegð af rekstri er 16.4%. Veltufé frá rekstri er áætlað tæpar 247 milljónir eða 9.9% af tekjum. Afborganir lána eru áætlaðar 264 milljónir, af langtímalánum eru afborganir 247 milljónir og skammtímalán lækka um 17 milljónir. Áætlað er að nýjar lántökur nemi 303 milljónir, en þar af verða lántökur vegna hjúkrunarálmu við DAB 208 milljónir. Eins og áður hefur komið fram í fréttatilkynningum frá Borgarbyggð þá endurgreiðir ríkið 85% af byggingarkostnaði við nýbygginguna í gegnum húsaleigu. Ef lántökur vegna hjúkrunarálmu eru undanskildar þá eru áætlaðar lántökur sveitarsjóðs 95 milljónir.
Að undanförnu hefur tekist að rétta af rekstur Borgarbyggðar, eftir erfiðleika á árunum 2008 og 2009 í kjölfar efnahagshrunsins. Áfram verður unnið að því á árinu 2012 að strykja rekstur sveitarfélagsins í samræmi við nýjar fjármálareglur sveitarfélaga.
Nánari upplýsingar veitir Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri í síma 433-7100 eða 896-2177
 

Share: