Íþróttadagur í Borgarbyggð

febrúar 27, 2002

Sunnudaginn 24. febrúar var mikið um að vera í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi en þá var svokallaður íþróttadagur. Frítt var í sund og þreksal og voru fjölmargir sem nýttu sér það. Um kl. 16.oo hófst svo dagskrá í íþróttamiðstöðinni þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir afrek síðasta árs.

Dagskráin byrjaði á skemmtilegu atriði nemenda Grunnskóla Borgarness úr Grease, en það er árshátíðarleikrit þeirra þetta árið. Þá sýndu einnig þolfimihópur og hópur ungra freestyledansara.

Þá voru veittar viðurkenningar. Tómstundanefnd veitir annað slagið viðurkenningu fyrir störf í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í bæjarfélaginu. Að þessu sinn var það Ingunn Jóhannesdóttir sem hlaut þessa viðurkenningu en hún hefur unnið mjög gott starf við stjórnun frjálsíþróttamála.

Aðalstjórn Skallagríms veitir ár hvert viðurkenningu fyrir góðan stuðning við íþróttalíf í bæjarfélaginu og í ár var það Hótel Borgarnes sem hlaut þessa viðurkenningu.

Veitt var viðurkenning úr minningasjóði Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar og hlaut hana Gunnar Smári Jónbjörnsson sundmaður.
Viðurkenningar fyrir landsliðssæti á árinu 2001 voru veittar þeim Kristínu Þórhallsdóttir, Hallberu Eiríksdóttur og Hlyni Bæringssyni.

Sundmaður ársins var Edda Bergsveinsdóttir Skallagrími. Badmintonmaður ársins var Inga Tinna Sigurðardóttir Skallagrími. Íþróttamaður fatlaðra var valinn Guðmundur Ingi Einarsson. Golfmaður ársins var Viðar Héðinsson. Körfuknattleiksmaður ársins var Hlynur Bæringsson. Knattspyrnumaður ársins var Hilmar Þór Hákonarson. Tilnefndar sem frjálsíþróttamaður ársins voru Kristín Þórhallsdóttir Stafholtsstungum og Hallbera Eiríksdóttir Skallagrími, sem varð fyrir valinu sem frjálsíþóttamaður ársins. Sem hestamaður ársins voru tilnefndar Sigrún Sjöfn Ámundadóttir Hestamannafélaginu Skugga og Elísabet Fjeldsted Hestamannafélaginu Faxa og var Elísabet valin hestamaður ársins.

Úr þessum föngulega hópi íþróttafólks valdi tómstundanefnd Hilmar Þór Hákonarson, knattspyrnumann úr Skallagrími, íþróttamann Borgarbyggðar árið 2001.


Share: