IsNord tónlistarhátíðin

júní 9, 2008
IsNord tónlistarhátíðinverður haldin í fjórða sinn helgina 13.-15. júní. Að þessu sinni er efnisskráin mjög fjölbreytt.
Hljómsveitin Hjaltalínsem vakið hefur athygli fyrir frumlega blöndu klassískrar- og popptónlistar byrjar hátíðina með tónleikum í Gamla Mjólkursamlaginu í Borgarnesi föstudaginn 13. júní kl. 20.00.
Laugardaginn 14. júní kl. 14.00 heldur Knut Kettingfyrirlestur í Tónlistarskóla Borgarfjarðar Borgarbraut 23 Borgarnesi, um tónskáldið Carl Nielsen og konu hans, myndlistarkonuna Anne Marie sem gerði lágmynd sem staðsett er í Skallagrímsgarði. Knut er einn helsti sérfræðingur Dana um tónlist og mikill fengur að fá hann. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og aðgangur er ókeypis.
Sama dag kl. 16.00 verða tónleikar í Borgarneskirkju þar sem David Danholt tenór og Jónína Erna Arnardóttir píanóleikariflytja danska og íslenska tónlist en David er einn efnilegasti tenór Dana um þessar mundir og fékk m.a. nýlega verðlaun tónlistargagnrýnenda í Danmörku.
Um kvöldið kl. 20.30 verða tónleikar á Hótel Borgarnessþar sem norska tangóhljómsveitin Tango for tre stígur á stokk. Hljómsveitin er þekkt fyrir blóðheitan tangó og Bryndís Halldórsdóttir og Hany Hadaya munu sýna tangó, en þau eru eitt fremsta tangópar landsins. Eftir tónleikana mun gestum gefast tækifæri til að reyna sig við tangóinn.
Sunnudaginn 15. júní verða tónleikar í Reykholtskirkju kl. 16.00. Fram koma listamenn sem eru ættaðir frá Húsafelli eða tengjast þeirri ætt. Um er að ræða fríðan hóp listamanna, margir hafa nú þegar getið sér gott orð eins og Ástríður Alda Sigurðardóttir og Ingibjörg Þorsteinsdóttir píanóleikarar og Úlfhildur Þorsteinsdóttir og Þórdís Stross fiðluleikarar. Meðan aðrir eru að stíga sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni eins og Þorsteinn og Pétur Björnssynir og Unnur og Ásta Þorsteinsdætur.
Aðgangseyrir á tónleikana er 2.000 kr. Ókeypis er fyrir 14 ára og yngri og hægt er að kaupa tónleikapassa á alla tónleikana á 3.500 kr.
Nánari upplýsingar eru á isnord.is
(Fréttatilkynning)
 

Share: