Tvö söfn í Borgarfirði taka þátt í íslenska safnadeginum í ár, en hann er haldinn annan sunnudag í júlí ár hvert og var fyrst haldinn árið 1997.
Í þetta sinn er það því sunnudagurinn 13. júlí.
Markmiðið með þessu er að m.a. vekja fólk til vitundar um mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar hinna sameiginlegu verðmæta þjóðarinnar.
Söfn víða um land gera eitthvað til hátíðabrigða á þessum deegi og víða er ókeypis aðgangur.
Í Borgarfirði eru það Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri og Safnahús Borgarfjarðar í Borgarnesi sem taka þátt. Í Landbúnaðarsafninu verður mikil dagskrá og meðal annars farið í skrúðkeyrslu á gömlum Ferguson dráttarvélum undir stjórn Hauks Júlíussonar og Erlendar Sigurðssonar. Á Safnadaginn í fyrra voru einar 16 vélar með í akstrinum og búist er við enn fleiri þátttakendum nú, sjá nánar á www.landbunadarsafn.is.
Í Safnahúsi Borgarfjarðar verður ókeypis aðgangur að sýningunni „Börn í 100 ár“ sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Ennfremur verður boðið upp á leiðsögn á heila tímanum. Sjá nánar á www.safnahus.is.
Að lokum skal minnt á aðra frábæra safna- og safnatengda starfsemi í héraði, svo sem Landnámssetur í Borgarnesi, Snorrastofu í Reykholti og Veiðiminjasafnið í Ferjukoti. Á öllum þessum stöðum eru frábærar sýningar hver með sínum hætti.
Á morgun, laugardag, birtist stór auglýsing í Morgunblaðinu þar sem dagskrá safnadagsins er kynnt.
Sjá ennfremur: www.safnarad.is
Ljósmynd: úr Landbúnaðarsafninu – Bjarni Guðmundsson