Í mars 2020 undirrituðu Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Magnús Smári Snorrason formaður fræðsluráðs Borgarbyggðar samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög.
Myndaður var stýrihópur sem hefur það hlutverk að samræma og stýra innleiðingu Barnasáttmálans innan sveitarfélagsins.
Í stýrihópnum sitja Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Eiríkur Ólafsson sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, Ragnar Frank sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, Lilja Björg Ágústsdóttir og Sonja Lind Eyglóardóttir fulltrúar sveitarstjórnar, Davíð Guðmundsson frá UMSB og þau Klara Ósk Kristinsdóttir, Bjartur Daði Einarsson, Daníel Fannar Einarsson og Elfa Dögg Magnúsdóttir fulltrúar Ungmennaráðs. Sóley Birna Baldursdóttir vinnur að kortlagningu á stöðu barna og ungmenna í Borgarbyggð í sumar.
Stýrihópurinn hélt sinn fyrsta fund þar sem farið var yfir helstu þætti verkefnisins sem byggja á þekkingu á réttindum barna, því sem barninu er fyrir bestu, jafnræði – að horft sé til réttinda allra barna. Einnig á virkri þátttöku barna og barnvænni nálgun.
Stýrihópurinn mun aftur funda í lok ágúst með aðilum frá UNICEF þar sem farið verður yfir gátlista um stöðu sveitarfélagsins.
Til að sáttmálinn öðlist merkingu og nýtist sem hagnýtt verkfæri innan sveitarfélagsins er þörf á fræðslu um hvernig sáttmálinn tengist daglegu lífi barna og ungmenna – það þarf að setja hann í samhengi við verkefni sveitarfélagsins og börnin sem þar búa.
Því er fyrirhugað að halda hálfsdagsnámskeið fyrir stýrihóp, kjörna fulltrúa, sviðsstjóra og umsjónarmann 11. september nk. og hálfdagsnámskeið fyrir ungmennaráðið sama dag. Einnig hefur starfsfólk leikskóla og grunnskóla kallað eftir námskeiði á sameiginlegum starfsdegi í vetur.