Í Einkunnum er fjölbreytilegt lífríki.

október 26, 2007
Útivistarsvæðið í Einkunnum var gert að fólkvangi vorið 2006. Fólkvangurinn stendur vestast í Hamarslandi við Borgarnes. Nokkuð hefur verið um hann rætt að undanförnu vegna þeirrar athygli sem gerð deiliskiplagsins hefur vakið. Deiluskipulagsdrögin hafa verið unnin í samræmi við markmið frislýsingarinnar eins og það er birtist í Stjórnartíðindum 480/2006 (sjá hér auglýsinguna í Stj.tíð.).
Íbúar Borgarbyggðar virðast almennt ekki hafa þekkt þetta svæði vel og hefur því friðlýsingin og umræðan um deiliskipulagið vakið forvitni margra um svæðið. Umferð jókst til dæmis til muna upp í Einkunnir í sumar. Þeir sem heimsækja Einkunnir eru á einu máli um að þarna sé svo sannarlega útisvistarsvæði sem íbúar sveitarfélagsins geti verið stoltir af og að það bjóði upp á fjölbreytta möguleika til útivistar.
Það sem ber helst að vernda í fólkvangnum samkvæmt reglunum sem um hann gilda er gróður, dýralíf, votlendi og jarðmyndanir og af þessu öllu er gnótt á svæðinu.
Samkvæmt skrám sem þeir Hilmari Már Arason, formaður umsjónarnefndar Einkunna og Finnur Torfi Hjörleifsson, nefndarmaður í umsjónarnefndinni hafa haldið, má að minnsta kosti finna eftirfarandi fugla og plöntur í Einkunnum: Álft, Stökkönd, Himbrima, Skógarþröst, Músarindil, Hrafn, Haförn, Smyril, Hrossagauk, Spóa, Heiðlóu, Rjúpu, Kríu, Auðnutittling, Branduglu, Steindepil, Stelk, Jaðrakan, Þúfutittling, Toppönd, Sílamáv og Kjóa. Af gróðursettum trjám (sjá hér lista yfir hluta þeirra trjáa) má finna Bergfuru, Birki, Blágreni, Elri, Hvítgreni, Lerki, Rauðgreni, Sitkabastarð, Sitkagreni, Skógarfuru og Stafafuru.Plöntur sem eru áberandi á svæðinu eru meðal annars Einir, Fjalldrapi, Krækiberjalyng, Bláberjalyng, Bláklukka, Skarfífill, Hóffífill, Mjaðurt, Sortulyng, Hrafnsfífa, Klófífa, Beitilyng, Engjarós, ýmsar tegundir stara, elftinga, mosa og sveppa.
 
 

Share: