Íbúaþing laugardaginn 19. nóvember 2005

nóvember 9, 2005
 

Í einni sæng

 

Tilhugalíf fjögurra sveitarfélaga

Íbúar í Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppi og Kolbeinsstaðahreppi eru boðaðir til þings í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri laugardaginn 19. nóvember nk. Íbúaþingið hefst kl. 10.30 og stendur til kl. 15.30.
Á íbúaþinginu flytur fulltrúi frá Fljótsdalshéraði erindi, en þar hefur nýlega farið fram sameining af svipuðum toga. Greint verður frá reynslu þeirra af sameiningu, hvernig best er að málum staðið og hvað ber að varast. Gísli Einarsson, fréttamaður með meiru, mun síðan varpa sínu skæra ljósi á það hvernig nýtt sveitarfélag á að hans mati að vera. Því næst verður fyrirkomulag dagsins kynnt og þinggestir skipta sér í vinnuhópa sem fjalla munu um afmörkuð viðfangsefni hins nýja sveitarfélags. Í lokin koma hóparnir saman og greint verður frá helstu niðurstöðum þeirra. Boðið verður uppá léttan hádegisverð og kaffiveitingar.
Sameining Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhrepps og Kolbeinsstaðahrepps var samþykkt í kosningum sl. vor og mun sameiningin taka gildi vorið 2006. Sameiningu sveitarfélaga fylgja óhjákvæmilega breytingar. Mikilvægt er að við breytingar séu hugmyndir og sjónarmið íbúanna höfð að leiðarljósi. Segja má að sveitarfélögin fjögur séu nú “trúlofuð” og hafa íbúarnir tækifæri til að taka þátt í tilhugalífinu og stuðla að því að vel takist til með “hjónabandið”.
Tilgangurinn með íbúaþinginu er að fá íbúana til að koma saman, ræða málin og setja fram sína framtíðarsýn og tillögur um fyrirkomulag hins nýja sameinaða sveitarfélags þannig að sem breiðust samstaða um áherslur náist. Samtakamátturinn verður seint ofmetinn og því eru íbúar þessara fjögurra sveitarfélaga hvattir til að fjölmenna á íbúaþingið og leggja lóð á vogarskálarnar.
Það er Rannsóknarmiðstöð Viðskiptaháskólans á Bifröst sem skipuleggur og stýrir íbúaþinginu.
 

Share: