Hnoðraból opnar á nýjum stað

janúar 18, 2021
Featured image for “Hnoðraból opnar á nýjum stað”

Á föstudaginn fór fram formleg opnun leikskólans Hnoðrabóls í nýju húsnæði á Kleppjárnsreykjum. Starfsemi leikskólans var á tímabili á tveimur stöðum, á nýja staðnum á Kleppjárnsreykjum og á Grímsstöðum í Reykholtsdal en nú eru allir komnir undir sama þak. Í dag starfa alls 12 starfsmenn við leikskólann og 30 börn stunda þar nám.

Leikskólinn var upphaflega stofnaður af áhugasömum foreldrum í sveitinni árið 1982 og var þá á milli húsnæða þar til Reykholtsdalshreppur keypti húsið á Grímsstöðum undir leikskólastarfsemina. Skólinn hefur verið í húsinu frá 1991.

Starf Hnoðrabóls hefur verið farsælt í gegnum áratugina og hefur skólinn notið mikillar velvildar nærsamfélagsins alla tíð. Svo mikið að börn fá reglulega prjónagjafir frá ömmum leikskólabarna sem hafa lokið námi. Samfélagið hefur mótað og auðgað starf skólans, hvatt til  samskipta,  samvinnu og vináttu sem er hverjum skóla afar dýrmætt. 

Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri, Hlöðver I. Gunnarsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs og Soffía D. Jónsdóttir nýráðin gæða- og mannauðsstjóri fengu heldur dimmar móttökur en leikskólinn tók virkan þátt í Föstudeginum Dimma. Börnin voru einungis með kveikt á vasaljósum í dágóða stund. Því næst sungu þau þrjú lög og fengu síðan rósir í tilefni dagsins. Starfsmenn leikskólans fengu köku  með kærri kveðju frá Borgarbyggð, þar sem þeim er þakkað fyrir ómælda þolinmæði og sveigjanleika sem þau hafa sýnt í gegnum þessar breytingar.

Því næst var farið í skoðunarferð um nýja húsnæðið, þar á meðal skoðað sameiginlegt rými leikskólans og grunnskólans. Þar er að finna kaffistofu, fundarherbergi, vinnuherbergi fyrir sérfræðinga og skrifstofur fyrir starfsmenn.

Áætlað er að hafa opið hús fyrir íbúa og aðra gesti síðar þegar sér fyrir endann á þessum fordæmalausum tímum.

 

 


Share: