Héraðsskjalasafnið tekur þátt í opnu húsi Borgarskjalasafns

nóvember 12, 2010
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi, verður með opið hús í Borgarskjalasafni Reykjavíkur, Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, Reykjavík laugardaginn 13. nóv. 2010 kl. 13.00 til 17.00 í tilefni af Norrænum skjaladegi. Opna húsið er undir kjörorðinu: Eins og vindurinn blæs… Sextán héraðsskjalasöfn, og þar á meðal Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, taka þátt í opna húsinu með einum eða öðrum hætti.
Boðið verður upp á áhugaverða fyrirlestra, sýningu á skjölum, ljósmyndasýningar frá héraðsskjalasöfnunum, kórtónleika, sögufélög kynna rit og mynddiska, barnakrókur þar sem börnin fá blöðru og litabók, kynnt verður starfsemi héraðsskjalasafnanna og fleira. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
 
Fyrirlestrar og uppákomur:
kl. 13.00 „Í jöklanna skjóli“ – myndbrot um horfna lífshætti í Skaftafellssýslum.
kl. 13.30 Setning sameiginlegs skjaladags héraðsskjalasafna.
kl. 13:35 Söngfélag Skaftfellinga syngur nokkur lög. Kórstjóri Friðrik Vignir Stefánsson.
kl. 14.00 Gunnar Hersveinn: Þjóðgildi Íslendinga.
kl. 14.30 Hrafn Sveinbjarnarson: „Að lífið sé skjálfandi lítið gras.“ Börnin úr Hvammkoti og Kópavogslækurinn.
kl. 15.00 Svanhildur Bogadóttir: „Einangrunin rofin.“ Skjalasöfn í fortíð, nútíð og framtíð.
kl. 15.30 Sævar Logi Ólafsson: Loftvarnir í Reykjavík.
kl. 16.00 Guðrún Nína Petersen: Fljúgandi furðuhlutir og skemmtileg ský.
kl. 16.30 Ragnhildur Bragadóttir: Lán er að hann þig fái… Um ástina í póstkortum og bónorðsbréf til ungrar Reykjavíkurfrauku um aldamótin 1900.
Ljósmyndasýning – 15 héraðsskjalasöfn hafa lagt til ljósmyndir úr söfnum sínum og úr daglegri starfsemi. Oft segja myndir meira en þúsund orð og á undanförnum árum hefur fjöldi ljósmynda verið afhentur til héraðsskjalasafnanna. Mikil vinna er framundan við skráningu mynda og eru gestir hvattir til að leggja okkur lið við skráningu.
Skjalavarsla – góð ráð og leiðbeiningar – sérfræðingar héraðsskjalasafnanna gefa góð ráð og leiðbeiningar um skjalavörslu.
Í sýningarkössum verða skjöl frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar, Héraðsskjalasafni Árnesinga, Héraðsskjalasafni Kópavogs, Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar og Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Einnig verða sýnd ástarbréf úr einkaeigu.
Sögufélagið, Sögufélag Borgfirðinga og Sögufélag Árnesinga kynna starfsemi sína. Skemmtilegar bækur á góðu verði.
Ættfræðiþjónustan ORG verður á staðnum – ef þú vilt vita meira um afa og ömmu.
Í barnahorni gefst börnum kostur á að lita myndir og fá hengdar upp á vegg meðan foreldrar skoða sýningar. Boðið verður upp á litabækur og blöðrur meðan birgðir endast. Tröllasögur fyrir þau börn sem þora.
Kaffihorn, þar sem boðið verður upp á kaffi og meðlæti og eitthvað fyrir börnin líka. Þá hefur verið settur upp sérstakur skjaladagsvefur allra skjalasafnanna, þar sem sýnd eru skjöl og ljósmyndir tengd þema dagsins sem er veður og umhverfi. Slóðin á hann er www.skjaladagur.is
Slóðin á vef Félags héraðsskjalasafnanna er www.heradsskjalasafn.is
 
Ljósmynd: skjöl úr Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar/Guðrún Jónsdóttir
 

Share: