Föstudaginn 18. október kom bæjarstjórn Akraness í heimsókn til Borgarbyggðar.
Heimsóknin hófst við Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi og var gengið þaðan í gegnum Skallagrímsgarðinn í Grunnskólann í Borgarnesi þar sem Kristján Gíslason skólastjóri sýndi húsnæði og sagði frá starfsemi skólans. Að lokinni heimsókn í skólann var haldið í fundarsal bæjarstjórnar þar sem haldinn var sameiginlegur fundur bæjarstjórnanna.
Á fundinum voru tekin fyrir ýmis sameiginleg mál s.s. almenningssamgöngur á Vesturlandi, atvinnumál kvenna, sameining sveitarfélaga og málefni fatlaðra. Þá var einnig undirritað samkomulag milli sveitarfélaganna um samstarf og samvinnu Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að auka eins og kostur er samstarf og samvinnu í því skyni að bæta þjónustu beggja sveitarfélaganna gagnvart íbúum þeirra og ná fram hagstæðum vöru- og þjónustukaupum. Auk þess er kveðið á um í samkomulaginu að starfsmenn sveitarfélagnna skulu skoða hver á sínu svið möguleika á auknu samstarfi og samvinnu sem leiði til þess að markmið samkoulagsins náist.
Í samkomulaginu eru nefndir nokkrir þættir þar sem hægt er að auka samstarf og samvinnu s.s. gagnkvæma aðstoð slökkviliða, sameiginleg útboð, samstarf í fráveitumálum, samstarf í vímuvarnarmálum, samstarf við námskeiðahald starfsmanna grunn- og leikskóla í símenntunarmálum, auka samstarf varðandi þjónustu tæknideilda og kanna áhuga á samstarfi íþróttafélaga sveitarfélaganna. Þá er ákvæði um þjónustugjöld og að bæjarstjórnirnar fundi árlega til að fara yfir efni samkomulagsins og endurskoða það. Sjá samkomulagið í heild sinni.
Að loknum fundi bæjarstjórnanna var farið að Bifröst þar sem starfsemi skólans var kynnt og að því loknu var sameiginlegur kvöldverður að Búðarkletti í Borgarnesi.