Heimili og skóli verðlaunar Gleðileikana

maí 22, 2015
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 20. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Anna Margrét Sigurðardóttir, formaður Heimilis og skóla, afhenti verðlaunin ásamt Gísla H. Guðlaugssyni, formanni dómnefndar.
Gleðileikarnir í Borgarnesi hlutu Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2015.
Umsögn um gleðileikana:
Gleðileikarnir eru þrautaleikur þar sem nemendum á elsta stigi Grunnskóla Borgarness er skipt niður í hópa sem þurfa að leysa krefjandi verkefni sem ekki eru hluti af þeirra daglega skólalífi. Sjálfstæði og samvinna eru einkunnarorð leikanna og miðast að því að efla samheldni og samstöðu í samfélaginu sem og að gefa þátttakendum tækifæri til þess að spreyta sig á skemmtilegum þrautum. Allir þátttakendur fara heim af leikunum með jákvæð og falleg skilaboð í farteskinu og nýja sýn á eigin styrk og getu. Verkefnið er vel heppnað og vekur athygli í samfélaginu, eflir samstarf heimilis og skóla og virkjar foreldra í starfi með nemendum og fær þá til þess að kynnast innbyrðis og öðrum nemendum skólans.
Hvatningarverðlaun 2015 hlutu nemendur og foreldrar Austurbæjarskóla fyrir Spennistöðina og dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2015 er Sigríður Björk Einarsdóttir formaður foreldrafélags Hólabrekkuskóla.
Sjá nánar á: www.heimiliogskoli.is
 

Share: