Heilsueflandi samfélag

nóvember 7, 2016
Featured image for “Heilsueflandi samfélag”

Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkti á fundi þann 3. nóvember sl. að sækja um aðild að Heilsueflandi samfélagi, sem er verkefni á vegum Embættis landlæknis, en heilsueflandi samfélag leggur áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og á öllum sviðum. Í heilsueflandi samfélagi er áhersla lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði, og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.

Föstudaginn 4. nóvember sl. bauð Embætti landlæknis upp á vinnustofur um heilsueflandi samfélag á Vesturlandi. Vinnustofurnar fóru fram í Hjálmakletti, sal Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi. Vinnustofurnar voru hugsaðar sem fyrsta skref til að vinna markvisst heilsueflingarstarf í samfélaginu, en Borgarbyggð hefur sótt um að gerast Heilsueflandi samfélag í samstarfi við Embætti landlæknis.

Á vinnstofurnar mættu tengiliðir og fulltrúar frá leik- grunnskólum í Borgarbyggð og frá Menntaskóla Borgarfjarðar. Einnig mættu fulltrúar þeirra sem vinna við skipulag, frístund, félagsmál og íþrótta- og tómstundamál.

Dagskráin hófst kl. 10  með ávarpi Gunnlaugs A. Júlíussonar sveitarstjóra Borgarbyggðar. Einnig var boðið upp á erindi tengd lýðheilsuvísum og síðan voru umræður í vinnustofum þar sem skipt var upp í  hópa eftir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og samfélagi. Í síðari hluta vinnustofunnar vann hvert sveitarfélag fyrir sig að því að leggja grunn að áframhaldandi vinnu með heilsueflingu í sveitarfélaginu.

Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á www.heilsueflandi.is


Share: