Hátíðahöld á 17. júní

júní 16, 2009
Hátíðahöld sveitarfélagsins í tilefni þjóðhátíðar verða að mestu leyti í Skallagrímsgarði í Borgarnesi og er þar vegleg dagskrá frá kl. 14.00. fyrr um daginn er sundlaugin opin frá 9-12. Frjálsíþróttadeild Skallagríms stendur fyrir hátíðarhlaupi á Skallagrímsvelli kl. 10.00 og Einar Áskell gleður yngri börnin í rómaðri túlkun Bernds Ogrodnik í íþróttamiðstöðinni kl. 11.00. Að lokinni skátamessu í Borgarneskirkju kl. 13.00 verður gengið fylktu liði undir forystu skátanna frá kirkjunni niður í Skallagrímsgarð þar sem dagskrá hefst stundvíslega kl. 14.00 á hátíðarávarpi Einars Kárasonar rithöfundar. Við hliðið í garðinum verða tveir nemendur Tónlistarskóla Borgarfjarðar og leika fyrir gesti: þær Ester Alda Hrafnhildardóttir og Margrét Gunnarsdóttir. Fjallkona að þessu sinni er Sara Dögg Svansdóttir, en það er Kvenfélag Borgarness sem annast þann dagskrárlið. Karlakórinn Söngbræður kemur fram undir stjórn Viðars Guðmundssonar og Stebbi og Eyfi taka síðan við merkjum. Að því loknu taka Borgfirskir listamenn við og skemmta til loka hátíðarinnar. Veðurspáin segir að þarna verði hæglætisveður en geti ringt á köflum og er fólk beðið að klæða sig eftir veðri. Dagskrána má sjá með því að smella hér.
Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður víðar fagnað um sveitarfélagið og er það auglýst nánar á viðkomandi stöðum. Á Hvanneyri stendur Ungmennafélagið Íslendingur fyrir dagskrá og þjóðhátíðargrilli og í Lindartungu verða ungmennafélagið Eldborg og Kvenfélagið Björk með leiki og veitingar. Í Brautartungu sér Ungmennafélagið Dagrenning um dagskrá og í Logalandi stendur Ungmennafélag Reykdæla fyrir hátíðahöldum.
Í lokin skal enn minnt á að mikill fengur er í því ef fólk mætir í þjóð- og hátíðarbúningum til hátíðahalds og nýstúdentar skarta húfum sínum.
 
 

Share: