
Markmiðið með dagskránni um sr. Hallgrím er að efla vitund Vestlendinga og annarra landsmanna um sr. Hallgrím og þau miklu menningarverðmæti sem tengjast lífi hans og starfi í Saurbæ. Fjölmargt hefur verið um hann rætt og ritað, og margir viðburðir verið tengdir honum og ómetanlegu ævistarfi hans. Snorrastofu, Hallgrímskirkju og öðrum aðstandendum gefst nú í tengslum við 50 ára vígsluafmælið gott tækifæri til að miðla þekkingu um sögu Saurbæjar og veru sr. Hallgríms og konu hans, Guðríðar Símonardóttur, á staðnum.
Fyrirlesarar í dagskránni, sem ber heitið ,,Hallgrímsstefna á heimaslóð”, verða Margrét Eggertsdóttir, Þórunn Sigurðardóttir og Kristján Eiríksson, sérfræðingar við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og Einar Sigurbjörnsson, prófessor í guðfræði. Sigurbjörg Þrastardóttir, rithöfundur, mun stjórna dagskránni, en Einar Örn Thorlacius, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar, setja hana.