Nú er lokið fyrsta áfanga í heildarendurnýjun tölvukosts Grunnskólans í Borgarnesi. Gengið hefur verið frá kaupun á 24 tölvum af Dell gerð frá EJS ásamt prenturum og skjávarpa. 16 af þessum vélum eru í endurgerðu tölvuveri skólans og kemur það til með að breyta miklu fyrir skólann. Koma þessar vélar í stað 6 ára gamalla véla sem verða nú teknar til annarra nota. Einnig var tölvum fjölgað verulega á vinnusvæði kennara. Þar eru nú fimm nýjar vélar og þar af fjórar öflugar fartölvur. Tengjast þær þráðlaust við kerfi skólans þannig að notendur geta verið hvar sem er innan vinnusvæðisins við tölvuvinnslu. Stýrikerfið er Win 2000.
Þessi fjölgun tölva núna og sérstaklega endurnýjun tölvuversins gjörbreytir allri aðstöðu skólans til kennslu og hagnýtingu tölvu- og upplýsingatækninnar enda aðstaðan eins og hún best gerist. Er það von okkar í skólanum að þessi bætti aðbúnaður skili sér í bættri og öflugri kennslu allra námsgreina.
Eins breytir þetta allri aðstöðu til námskeiðahalds hér í Borgarnesi. Til vors er Símenntunarmiðstöð Vesturlands þegar búin að skipuleggja þrjú tölvunámskeið fyrir almenning hér í Borgarnesi þannig að segja má að þörfin hafi verið orðin brýn. Tölvuvæðingunni verður haldið áfram í haust þegar nýbygging skólans verður tekin í notkun og þannig smám saman haldið áfram við þetta mikla verkefni sem allir skólar standa frammi fyrir að þurfa að gera og hafa verið að gera á undanförnum árum.
Nánari upplýsingar gefur Kristján Gíslason skólastjóri í síma 437-1229