Göngum til góðs á laugardaginn

október 4, 2012
Frá Rauða krossinum í Borgarfirði:
Næstkomandi laugardag 6. október efnir Rauði krossinn á Íslandi til landssöfnunarinnar Göngum til góðs. Markmið átaksins er að ganga í öll hús á Íslandi og safna framlögum til alþjóðlegs hjálparstarfs félagsins í þágu barna og ungmenna í neyð.
Rauði krossinn í Borgarfirðil ætur ekki sitt eftir liggja og ætlar að ganga í öll hús í Borgarnesi, Hvanneyri, Bifröst, Reykholti og Varmalandi dagana 5. og 6. október nk.
Deildin þarf að virkja að minnsta kosti 70 sjálfboðaliða til að ganga í hús þessa daga svo og í ýmis verkefni sem til falla vegna söfnunarinnar.
 
Við skorum á ykkur að bregðast við kalli og skrá þátttöku á vef Rauða krossins www.redcross.is Göngutúrinn þarf ekki að taka meira en um klukkutíma. Að göngu lokinni er boðið upp á kaffi/safa og kökur í Félagsbæ, Borgarbraut 4, Borgarnesi en þar ætlum við að vera með opið hús á föstudeginum frá kl. 16-20 og á laugardeginum frá kl. 11-16. Allir velkomnir!
Verkefni Rauða krossins með börnum og ungmennum í neyð eru eftirfarandi:
Rauði krossinn á Íslandi styður hjálparstarf malavíska Rauða krossins í héruðunum Chiradzulu og Mwanza. Aðstoðin felst meðal annars í stuðningi við munaðarlaus eða illa stödd börn.
Rauði krossinn á Íslandi styður 150 ungmenni árlega til náms og starfsþjálfunar í Moyamba athvarfinu í Síerra Leone. Ungmennin læra að lesa og skrifa og stunda iðnnám í valinni grein. Hver nemandi fær áhöld fyrir sitt sérsvið sem hann nýtir í náminu og fær svo til eignar eftir útskrift. Þannig fá ungmenni í trésmíðanámi sagir, hamra, hefla og annað slíkt en klæðskeranemarnir fá meðal annars forláta saumavél.
Rauði krossins á Íslandi er þátttakandi í umfangsmiklu verkefni í sálrænum stuðningi í Palestínu. Verkefnið hefur það markmið að minnka streitueinkenni hjá 10 – 12 ára börnum á Vesturbakkanum. Árangur af verkefninu hefur verið mældur reglulega, þ.e. gerðar hafa verið árlegar úttektir af utanaðakomandi aðila. Fram kemur í síðustu úttektarskýrslu að dregið hafi verulega úr streitueinkennum hjá börnunum. Skólabörn í sex sveitarfélögum fá sálrænan stuðning, þ.e. í austurhluta Jerúsalem, Hebron, Jenin, Qalqilya, Tulkarem og Tubas.
Rauði krossinn á Íslandi styður unga sjálfboðaliða í Gomel-héraði í Hvíta-Rússlandi við að fræða ungmenni um hættur mansals. Þá fá fórnarlömb mansals aðstoð þegar þau koma aftur heim, stundum eftir áralanga ömurlega vist erlendis.


Hjálparstarf Rauða krossins á Íslandi gefur árlega þúsundum barna og fullorðinna í erfiðum aðstæðum von um betra líf. Hjá Rauða krossinum felst allt okkar starf í því að styðja heimamenn til að hjálpa á heimavelli. Félög Rauða krossins eða Rauða hálfmánans eru til í 186 löndum, og hvert þessara félaga er með deildir sem byggja á starfi sjálfboðaliða í grasrótinni. Það tryggir árangur.
Við hvetjum fjölskyldur, vini og vinnufélaga til þess að ganga saman, því það er skemmtilegra. Það er gaman að taka þátt, leggja sitt af mörkum til góðs málefnis og finna fyrir samstöðu samfélagsins í þágu þeirra sem standa höllum fæti.

Sameinumst í Rauða liðinu og göngum til góðs föstudaginn 5. og laugardaginn 6. október!
Kær kveðja frá Rauða krossinum í Borgarfirði
 

Share: