Mikil umræða hefur verið í sveitarfélaginu um þjóðlendumál eftir að ríkið lagði fram kröfur sínar um þjóðlendur á svæðinu (svæði 8b). Þeir Björn Bjarki Þorsteinsson formaður byggðarráðs og Óðinn Sigþórsson sem hefur haldið utan um málið af hálfu Borgarbyggðar og annarra landeigenda áttu nýverið fund með Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra um kröfur ráðherra um þjóðlendur á svæði 8b. Óbyggðanefnd kynnti kröfurnar í desember s.l.
Á fundinum var farið yfir kröfugerðina og viðbrögð heimamanna kynnt ráðherra, einnig rætt um hvernig krafan kemur við eignarlönd og jarðir í eigu einkaaðila í Borgarbyggð og framkvæmd þjóðlendumála almennt.
Fundurinn var gagnlegur að mati þeirra sem hann sátu og þeir Bjarki og Óðinn voru ánægðir með viðbrögð ráðherra við þeirri sýn sem þeir settu fram en mjög langt er seilst af hálfu ríkisins inn á eignarlönd.
Á þessum sama fundi fór Bjarki yfir áherslur og áhyggjur heimamanna í Borgarbyggð varðandi framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Bjarki kynnti fyrir fjármálaráðherra vinnuhóp þann sem settur var á laggirnar fyrir stuttu og þær áherslur sem fram hafa komið frá Borgfirðingum. Að ekki verði anað út í sameiningu að óathuguðu máli heldur verði heimaaðilum og öðrum hagsmunaðailum, t.d. Bændasamtökum Íslands, boðið að borðinu og ákveðin sviðsmyndavinna sett í gang. Aðkomu allra þeirra aðila sem málið varðar verði tryggð, ekki einungis æðstu stjórnenda HÍ og LBHÍ ásamt embættismönnum í ráðuneytinu heldur verði málið unnið með þeim hætti sem fyrr greinir. Menn taki sér tíma til að skoða hvaða möguleikar kunni að vera og fyrr verði ekki teknar ákvarðanir sem geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. „Ég er þokkalega vongóður um að ráðherrar átti sig á mikilvægi þess að skoðaðir verði allir mögulegir fletir á því að Landbúnaðarháskólinn haldi sínum sess áfram, sem sjálfstæð stofnun, í Borgfirsku samfélagi eins og verið hefur eftir þennan fund“ sagði Bjarki að lokum.