Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 230 m.kr. af A-hluta. Áætlunin var afgreidd frá sveitarstjórn 14. desember 2023 ásamt áætlun um fjárheimildir 2025 – 2027.
Áfram er gert ráð fyrir kraftmiklum vexti tekna sem aðallega er drifinn af hækkun útsvarstekna. Íbúum í Borgarbyggð hefur fjölgað um 6% á árinu 2023 og atvinnulíf hefur verið kraftmikið. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli útsvars og fasteignagjalda á milli ára. Flestar gjaldskrár hækka um 5% sem samsvarar raunlækkun milli ára, nema í málaflokkum sem tilheyra b-hluta og raunlækkun gjaldskráa er óraunhæf og bregðast þarf við hallarekstri.
Á árinu 2024 gert ráð fyrir að útgjöld til flestra málaflokka lækki lítið eitt eða standi í stað sem hlutfall af skatttekjum. Hins vegar er fyrirsjáanlegt að útgjöld til félagsþjónustu aukist talsvert enda stækkar málaflokkurinn með fjölgun eldri borgara og íbúa af erlendum uppruna og aukinni þjónustu við börn og fatlað fólk.
Fyrir afskriftir er gert ráð fyrir að afkoma A-hluta verði jákvæð um 589 m.kr. á árinu 2024 og að handbært fé frá rekstri verði 626 m.kr. Áætlað er að eignir A-hluta í árslok 2023 verði bókfærðar á 9,4 ma.kr. og skuldir verði samtals 4,1 ma.kr. Þar af er áætlað að hreinar vaxtaberandi skuldir verði 1,7 ma.kr. (langímaskuldir að frádregnu handbæru fé). Hagfelldur rekstur og fjárhagsstaða skapar tækifæri til að ráðast í tímabæra uppbyggingu þjónustu. Á næstu fjórum árum er ráðgert að fjárfesta fyrir samtals 5,8 ma.kr. og samhliða fjárfestingum er hrein lántaka áætluð tæplega 3,3 ma.kr.
Þyngst vega framkvæmdir á næstu tveimur árum. Framundan er endurbygging húsnæðis Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og bygging knatthúss í Borgarnesi. Þá er stækkun leikskólans Uglukletts á dagskrá og frekari endurbætur á húsnæði grunnskóla og leikskóla í sveitarfélaginu. Áhersla er lögð á uppbyggingu sameiginlegrar viðbragðsmiðstöðvar slökkviliðs og lögreglu í samstarfi við ríkið. Á síðari hluta framkvæmdatímabils er stækkun íþróttahússins í Borgarnesi á áætlun.
Nýlokið er gatnagerð á Hvanneyri og Varmalandi og framundan eru gatnaframkvæmdir fyrir nýja byggð í Bjargslandi og fyrir atvinnuhúsnæði við Vallarás efst í Borgarnesi. Haldið verður áfram uppbyggingu göngustíga og auknu fjármagni ráðstafað til viðhalds eigna.
„Á yfirstandandi ári hefur verið unnið að undirbúningi verkefna. Aðstæður á fjármagnsmarkaði og vinnumarkaði hafa verið þannig að beðið hefur verið með fjárfestingu og lántöku. Borgarbyggð bindur vonir við að aðstæður verði hagfelldari til að ráðast í uppbygginu á nýju ári, með lækkun verðbólgu og vaxta og hóflegum kjarasamningum. Útboð vegna framkvæmda verða að vera í samræmi við áætlun og sama gildir um rekstur sveitarfélagsins. Ef forsendur bresta þá þarf að endurskoða áætlanir.
Síðustu tvö ár hefur íbúum í Borgarbyggð fjölgað mun hraðar en annars staðar á landinu. Við tökum þeirri fjölgun og fjölbreytni fagnandi. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk og allar forsendur eru til staðar til að halda áfram með metnaðarfulla áætlun um uppbyggingu innviða og þjónustu fyrir íbúa og atvinnulíf Borgarbyggðar í nútíð og framtíð,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri Borgarbyggðar.