Strákarnir “okkar” páskagulir og flottir |
Það verður án efa mikið talað um körfubolta í Borgarfirði um páskana og hvað strákarnir okkar hafa staðið sig vel í úrslitakeppninni um íslandsmeistaratitilinn. Áhrif þessa á samfélagið eru mikil og jákvæð og sérlega gaman hvernig til hefur tekist.Óskir um velgengni berast úr öllum sveitarfélögum landsins og gaman að finna samhug sem litla samfélagið okkar fær úr öllum áttum vegna þessarar velgengni á íþróttasviðinu.
Framundan er útileikur næstkomandi laugardag sem hefst kl. 16.oo í Njarðvík og hefur Sparisjóður Mýrasýslu ákveðið að bjóða stuðningsmönnum upp á fríar ferðir á leikinn og verður farið frá íþróttamiðstöðinni kl. 13.3o á laugardaginn. “Páskaleikurinn í ár” verður svo hér á heimavelli á annan dag páska og þá verður nú fjör í “Fjósinu” og ekkert annað að gera en að mæta og njóta þess að styðja strákana og syngja saman nokkur lög ef að líkum lætur.
Samstaða, gestrisni og kurteisi er það skemmtilega orð sem fer af stuðningsmönnum og leikmönnum okkar og vekur alls staðar jákvæða og góða athygli eins og lesa má í dagblöðum þessa daganna er Borgfirðingum og öðrum sem að koma til mikils sóma. Höldum áfram að vera jákvæð og gestrisin því hafa ber í huga að þetta er jú bara leikur og skemmtileg kóræfing þar sem 600 manns eða svo taka saman lagið. Lengi lifi menningin og bikarinn stóri færi vel í héraðinu.
i.jós.