Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi árið 2020 var haldin þann 19. maí s.l. í Þinghamri á Varmalandi. Nemendur í 7. bekkjum Grunnskólans í Borgarnesi, Grunnskóla Borgarfjarðar, Heiðarskóla og Auðarskóla tóku þátt í lokahátíðinni.
Allir nemendur 7. bekkja hafa notið góðrar þjálfunar í sínum skólum frá 16. nóvember, sem er dagur íslenskrar tungu og upphafsdagur keppninnar á landsvísu. Þegar líða tekur á skólaárið halda skólarnir forkeppnir þar sem valdir eru tveir til þrír fulltrúar hvers skóla auk varamanns. Skemmst er frá því að segja að Ernir Daði og Guðjón Andri, nemendur í Grunnskólanum í Borgarnesi hrepptu fyrsta og annað sætið í keppninni. Allir nemendur voru skólum sínum til sóma og voru dómarar ekki öfundsverðir af því hlutskipti að velja í verðlaunasæti.
Skáld keppninnar í ár voru Birkir Blær Ingólfsson og Jón úr Vör. Lesið var í þremur umferðum; í fyrstu umferð lásu nemendur úr skáldsögu Birkis Blæs, Stormsker, í annarri umferð voru lesin ljóð eftir Jón úr Vör og í síðustu umferð valdi hver flytjandi sér ljóð til flutnings. Ásdís Lind valdi og flutti ljóðið Hve elska ég þig gleði eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum, Ernir Daði flutti ljóðið Mitt faðir vor eftir Kristján frá Djúpalæk og Guðjón Andri flutti Frægðarförina eftir Heiðrek Guðmundsson.
Dómnefnd skipuðu þau Ingibjörg Einarsdóttir og Þorleifur Hauksson frá Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn, og Birgir Hauksson fulltrúi heimamanna.