Glæsileg frammistaða 7. bekkinga

mars 16, 2007

Það voru nemendur úr grunnskólum Borgarbyggðar sem prýddu þrjú efstu sætin í Stóru upplestrarkeppninni fyrir Borgarfjörð og Dali sem haldin var nýverið.
Þessir nemendur eru eftirtalin: Klara Sveinbjörnsdóttir frá Grunnskóla Borgarfjarðar (fyrsta sæti), Auður Eiðsdóttir frá Varmalandsskóla (annað sæti) og Alexander Gabríel Guðfinnsson frá Grunnskólanum í Borgarnesi (þriðja sæti).

Í Stóru upplestrarkeppninni kepptu nemendur 7. bekkja frá Grunnskólanum í Búðardal, Varmalandsskóla, Grunnskóla Borgarfjarðar, Laugagerðisskóla, Heiðarskóla og Grunnskólanum í Borgarnesi. Tveir keppendur komu frá hverjum skóla en þeir höfðu verið valdir eftir undankeppnir í sínum skólum.
 
Guðmundur Þorsteinsson aðstoðarskólastjóri Varmalandsskóla átti veg og vanda af undirbúningi keppninnar á Vesturlandi og stjórnaði samkomunni af röggsemi.
 
Frammistaða keppenda var að sögn dómara mjög góð og var keppnin bæði hörð og spennandi. Á milli atriða skemmtu nemendur 7. bekkjar á Varmalandsskóla gestum með vönduðum tónlistarflutningi. Sparisjóður Mýrasýslu veitti síðan vegleg peningaverðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin en auk þess fengu allir keppendur bók að gjöf frá Eddu – útgáfu hf.
Ljósmynd: Þorvaldur Hermannsson

Share: