Gæðamenntun í listum fyrir alla

september 23, 2019
Featured image for “Gæðamenntun í listum fyrir alla”

Svæðisþing tónlistarskóla á Vesturlandi var haldið í Borgarnesi í vikunni. Sigrún Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum kynnti nýgerðar breytingar á aðalnámskrá og rekstrarumhverfi tónlistarskóla í Finnlandi og vinnu við lög um rekstur tónlistarskóla og endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla hér á landi. Eftir erindi Sigrúnar stýrði Charles Ross, tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Egilstöðum smiðju þar sem þátttakendur unnu með hinn skapandi þátt í tónlistarnámi.

Að loknum hádegisverði var fræðslu- og umræðufundur um menntun fyrir alla og mótun menntastefnu til 2030. Fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu héldu erindi um þýðingu menntunar fyrir alla og hlutverk listarinnar í því samhengi. Umræður voru um hlut listgreina í nýrri menntstefnu í lok þingsins, þar sem fram kom að gæðamenntun í listum fyrir alla snúist í raun um stefnu, starfshætti og kennslufræði, þar sem gert sér ráð fyrir að nemendahópurinn sé fjölbreyttur og að jákvæð námsmenning ríki með áherslu á það sem nemandinn getur.

 


Share: