Fyrirlestur um sjálfstraust og aga

nóvember 14, 2008
Foreldrafélög grunnskólanna í Borgarbyggð sem kalla sig á samstarfsvettvangi 4XGB standa fyrir fyrirlestri með Jóhanni Inga Gunnarssyni, sálfræðingi, í Félagsmiðstöðinni Óðali í Borgarnesi fimmtudagskvöldið 20. nóvember kl. 20:00.
Handboltakappinn, rithöfundurinn og sálfræðingurinn Jóhann Ingi Gunnarsson hefur starfað sem sálfræðingur fyrir hin ýmsu félagasamtök, fyrirtæki og íþróttafélög í gegnum tíðina, bæði hér heima og erlendis, ásamt því að reka sína eigin sálfræðistofu. Einnig hefur Jóhann Ingi þjálfað íslenska landsliðið í handbolta og nokkur fremstu handboltalið Þýskalands í um sjö ár.
Í gegnum tíðina hefur hann skrifað nokkrar bækur sem snúa að sjálfstrausti og sjálfsstjórnun, nú síðast bókina ,,Með lífið að láni“ árið 2004 ásamt Sæmundi Hafsteinssyni. Jóhann Ingi hefur einnig starfað sem kennari við Endurmenntun Háskóla Íslands.
 
Á þessum fyrirlestri verður farið yfir hvað einkennir fólk með gott sjálfstraust og hvernig við byggjum upp okkar sjálfstraust og hvernig við getum haft jákvæð áhrif á sjálfstraust annarra. Sjálfstraust er mikilvægur þáttur aga og staðfestu: Tilfinningin fyri því að geta, þora og kunna veitir ákveðna öryggiskennd.
 
Ekki missa af þessu einstaka tækifæri til að hlusta á frábæran fyrirlesara! Allir eru velkomnir á fyrirlesturinn og aðgangur er ókeypis.
 
 

Share: