Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti tillögu fræðslunefndar um hækkun frístundastyrks á fundi 14. maí sl. sem hluta af aðgerðum sveitarfélagsins vegna COVID-19 og verður hann í heildina kr. 40.000 framvegis á ári.
Með hækkun frístundastyrksins vill sveitarstjórn Borgarbyggðar koma til móts við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu og undirstrika um leið mikilvægi skipulagðs íþrótta- og tómstundastarfs sem hluta af daglegu lífi barna og ungmenna í heilsueflandi samfélagi.
Frístundastyrkurinn er fyrir börn á aldrinum 6 – 18 ára sem hafa lögheimili í Borgarbyggð og er hægt að nýta frístundastyrkinn hjá félögum innan Borgarbyggðar sem og í öðrum sveitarfélögum.
Þeir foreldrar sem hafa nú þegar nýtt hluta af frístundastyrknum fyrir árið 2020 eiga þá inni mismuninn að kr. 40.000.
Nánari upplýsingar um frístundastyrkinn má finna hér.