Fréttatilkynning frá Óbyggðanefnd

desember 23, 2013
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur, fyrir hönd íslenska ríkisins, afhent óbyggðanefnd kröfur sínar um þjóðlendur á svokölluðu svæði 8 vestur ‒ Mýra- og Borgarfjarðarsýsla að undanskildum fyrrum Kolbeinsstaðahreppi ásamt Langjökli. Óbyggðanefnd, sem er sjálfstæður úrskurðarnefnd á stjórnsýslustigi, kynnir nú þessar kröfur í þeim tilgangi að ná til þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta.
Í stuttu máli er þjóðlendukröfum lýst þannig af hálfu lögmanns fjármála- og efnahagsráðherra:

Í Borgarfjarðarsýslu er gerð krafa um svæði sem kallað er Geitland, en það afmarkast af Langjökli að austan, Hafragili og Hvítá að norðan og Geitá að vestan.
 
Þá er í Borgarfjarðarsýslu einnig gerð krafa til svæðis sem nefnt er afréttur Lunddæla og Andkílinga ásamt vesturhluta Þórisjökuls. Það afmarkast af merkjalýsingum aðliggjandi jarða og Geitlandi, að austanverðu afmarkast það af sýslu- og sveitarfélagamörkum og að sunnan af Reyðarlæk, Reyðarvatni og Grímsá, að ármótum hennar og Lambár.
 
Þá er gerð þjóðlendukrafa til Langjökuls, miðað við stöðu jökulsins þann 1. júlí 1998
 
Í Mýrasýslu eru gerðar kröfur til eftirfarandi afréttarsvæða:
 
Afréttarsvæði Hraunhrepps, Álftaneshrepps, Hrafnabjarga og Borgarhrepps ásamt Staðartungu og Beilárheiði, sem afmarkast af merkjalýsingum aðliggjandi jarða og afréttarsvæðanna, og sýslumarka við Snæfellssýslu að vestan og Dalasýslu að norðan.
 
Ystutunguafréttur sem afmarkast af merkjalýsingum aðliggjandi jarða og afréttarsvæða og sýslumarka Dalasýslu að norðan.
 
Miðdælingaafréttur/Sauðafellsafréttur/Fellsendaafréttur sem afmarkast við merkjalýsingar aðliggjandi jarða og afréttarsvæða og sýslumarka Dalasýslu að norðan.
 
Sameiginlegt afréttarsvæði Stafholtstungna sunnan Norðurár, Hellistungur, Þverárhlíð og Hvítársíða, auk Lambatungna, Arnarvatnsheiðar og sameignarlands Kalmanstungujarða. Þetta svæði afmarkast af merkjalýsingum aðliggjandi jarða eins og þær eru viðurkenndar af hálfu íslenska ríksins, merkjalýsingum afréttarsvæðanna og sýslumarka Húnavatnssýslna og Strandasýslu að norðan og austan.
 

Nákvæma afmörkun og yfirlitskort er að finna á heimasíðu óbyggðanefndar (obyggdanefnd.is) og á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga og sýslumannsembætta.
Kröfur þessar voru birtar með lögformlegum hætti í Lögbirtingablaðinu miðvikudaginn 18. desember. Þar er skorað á þá sem telja til eignarréttinda á þjóðlendukröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir óbyggðanefnd innan þriggja mánaða, nánar tiltekið í síðasta lagi fimmtudaginn 20. mars 2014.
Að loknum framangreindum fresti fer fram opinber kynning á heildarkröfum (ríkis og annarra) sem stendur í einn mánuð. Einnig er svæðinu skipt í mál og boðað til fyrstu fyrirtöku. Mál eru síðan tekin fyrir eins oft og þörf er á, frekari gögn lögð fram og leitast við að skýra þau að öðru leyti. Loks fer fram svokölluð aðalmeðferð, með tilheyrandi vettvangsskoðun, skýrslutökum og málflutningi. Að lokinni aðalmeðferð eru mál tekin til úrskurðar og úrskurður kveðinn upp í kjölfarið.
 
Verkefni óbyggðanefndar er að úrskurða um annars vegar kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins og hins vegar kröfur þeirra sem telja sig eiga öndverðra hagsmuna að gæta, nánar tiltekið um 1) hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, 2) hver séu mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og 3) hver séu eignarréttindi innan þjóðlendu.
 
Þess skal loks getið að óbyggðanefnd hefur þegar lokið umfjöllun um eignarlönd og þjóðlendur á 70% af landinu öllu og 86% lands á miðhálendinu, samkvæmt skipulagslegri skilgreiningu á því hugtaki.
Óbyggðanefnd


Share: