2. fréttabréf Borgarbyggðar á árinu 2002 er komið út og hefur verið dreift á öll heimili í Borgarbyggð.
Með því að smella á "meira” hér fyrir neðan er hægt að sjá efni fréttabréfsins.
Borgarfjörður – Atvinnulíf, menntun og búseta – Málþing haldið á Hótel Borgarnesi – laugardaginn 2. mars 2002, kl. 13.00
Sveitarfélögin í Borgarfirði, norðan Skarðsheiðar, standa í sameiningu að málþingi um atvinnulíf, menntun og búsetu í Borgarfirði. Tilgangurinn er að skerpa ímynd Borgarfjarðar og gera svæðið að sýnilegri valkosti til búsetu og atvinnustarfsemi. Málþingið er öllum opið og aðgangseyrir er enginn. Íbúar Borgarbyggðar, sem og aðrir Borgfirðingar, er hvattir til að mæta og taka þátt í málþinginu.
Dagskrá
13.00-13.10 Málþingsstjóri setur þingið.
Bjarni Guðmundsson, prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
13.10-15.15 Framsöguerindi
Sókn á réttum vallarhelmingi
Stefán Logi Haraldsson, framkvæmdastjóri hjá Vírnet Garðastál hf
Hvað vildi Búkarín: Hvaða fyrirtæki og hver ekki?
Guðmundur Ólafsson, lektor við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og Viðskiptaháskólann í Bifröst
Í leikskóla er gaman
Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir, landslagsarkitekt og framkvæmdastjóri Landlína ehf
Borgarfjörður – allir heimsins möguleikar, en ekki gömlu aðferðirnar
Jón Sigurðsson, rekstrarhagfræðingur
Ferðaþjónusta – falinn fjársjóður?
Bjarnheiður Hallsdóttir, ferðamálafræðingur og framkvæmdastjóri Katla Travel
Efling sveitarfélaga og byggðaþróun
Grétar Þór Eyþórsson, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri og Byggðarannsóknastofnunar
15.15-15.20 Fyrirkomulag hópastarfsins kynnt
15.20-15.40 Kaffiveitingar í boði Geirabakarís, JGR umboðs- og heildverslunar og Kleinuhringjagerðar Gunnars
15.40-16.50 Hópastarf
Málþingsgestir skipta sér frjálst niður í 5 hópa.
Hópur 1 Atvinnulíf og þekkingarsamfélag
Hópstjóri: Magnús Árni Magnússon, aðstoðarrektor Viðskiptaháskólans
Hópur 2 Fjölskyldan og samfélagið
Hópstjóri: Helga Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Borgarbyggð
Hópur 3 Breytt samfélag
Hópstjóri: Kolfinna Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi í Borgarbyggð
Hópur 4 Ferðaþjónusta í Borgarfirði
Hópstjóri: Þórunn Gestsdóttir, sveitarstjóri Borgarfjarðarsveitar
Hópur 5 Byggðaþróun
Hópstjóri: Ríkharð Brynjólfsson, oddviti Borgarfjarðarsveitar
17.00-17.40 Hópstjórar kynna umræður hópanna
17.40-17.50 Ávarp Páls Péturssonar, félagsmálaráðherra
17.50-18.00 Ráðstefnustjóri slítur málþinginu
18.00 Léttar veitingar í boði félagsmálaráðherra
Punktar frá bæjarstjóra
Málefni slátrunar og kjötvinnslu
Atvinnumálin hafa verið í brennidepli í kjölfar þess að Norðlenska tilkynnti um áramótin um uppsagnir allra starfsmanna sinna í Borgarnesi og lokun starfseminnar. Heimaaðilar ákváðu strax að kanna leiðir fyrir áframhaldandi starfsemi undir nýjum fána. Til þess var nauðsynlegt að ná samningum við Norðlenska um yfirtöku á húsum, tækjum og vörumerkjum. Um miðjan janúar lauk nauðasamningum Kjötumboðsins sem leiddi m.a. til þess að Sparisjóður Mýrasýslu leysir til sín fasteignirnar í Brákarey.
Bæjarstjórn Borgarbyggðar fjallaði um málið á fjórum fundum í janúar og febrúar. Samstaða var um að skorast ekki undan því að koma að gangsetningu á nýju fyrirtæki um slátrun og kjötvinnslu í Borgarnesi. Slík aðgerð er þó ekki í anda þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið undanfarið um að bærinn standi utan við atvinnustarfsemi einstakra fyrirtækja. Markmið Borgarbyggðar verður því að koma þessari starfsemi í hendur annarra eignaraðila við fyrsta tækifæri.
Nú hafa náðst samningar við Norðlenska um kaup á tækjum og tólum, ásamt vörumerkjum og yfirtöku á leigusamningi húsanna. Þetta er þó háð endanlegu samþykki stjórna. Unnið er að stofnun félags um reksturinn og að koma starfseminni af stað. Hluthafar verða Sparisjóður Mýrasýslu, Borgarbyggð og Kaupfélag Borgfirðinga. Stórum hluta þeirra starfsmanna sem unnu hjá Norðlenska mun bjóðast vinna hjá fyrirtækinu. Vonast er til að starfsemin hefjist upp úr mánaðarmótum.
Með þessu hefur mikilli óvissu verið eytt. Fyrirkomulag sauðfjárslátrunar liggur þó ekki fyrir en líkur eru á að félagið geti komið að sauðfjárslátrun með einhverjum hætti. Ekki þarf að fjalla um mikilvægi þess að hin nýja starfsemi verði rekin réttu megin við núllið. Framtíð slátrunar og vinnslu í Borgarnesi kann að ráðast af því að þessi tilraun takist.
Leyfum okkur að vera bjartsýn
Ýmsum hefur orðið tíðrætt um svartsýni og úrtölur manna síðustu vikur. Er það að sumu leyti skiljanlegt. Samt hefur svartnættishjalið þótt ganga úr hófi fram. Þrátt fyrir allt eru tækifærin mörg og möguleikar svæðisins meiri en margra annarra utan höfuðborgarsvæðisins. Til að lyfta andanum hefur að frumkvæði dugmikilla einstaklinga verið boðað til funda sem hvetja til jákvæðni og samstöðu. Ástæða er til að fagna vel heppnuðum “hamingjufundi” og stofnun Framfarafélags Borgarbyggðar. Yfir áttatíu manns sóttu stofnfund félagsins sem byggir á bjartsýni og þeirri vissu að byggðin hafi öll heimsins tækifæri í hendi sér. Málþing sveitarfélaganna í Borgarfirði 2. mars um atvinnulíf, menntun og búsetu er einnig kjörið tækifæri íbúa til að kryfja framtíðina til mergjar.
Bifröst
Í umræðum um atvinnumál gleymist oft hin gríðarlega uppbygging sem nú á sér stað á Bifröst. Skömmu fyrir jól var tekin skóflustunga að 1.100 m² skólahúsnæði sem verður tilbúið til notkunar næsta haust. Þessi misserin eru í byggingu tugir íbúða á Bifröst. Samtals er verið að fjárfesta fyrir yfir 800 milljónir króna á staðnum. Þegar upp verður staðið er gert ráð fyrir að við Viðskiptaháskólann á Bifröst verði yfir 300 nemendur og íbúar á staðnum yfir 600.
Þessi mikla stækkun samfélagsins á Bifröst kallar á aukna þjónustu frá Borgarbyggð. Starfshópur lýkur senn við að móta tillögur um uppbyggingu á nýrri leikskóladeild á Bifröst sem geti tekið við 30 börnum. Fjölgunin hefur áhrif á grunnskólann á Varmalandi og er unnið að greiningu á valkostum um hvernig verði tekið á þeim málum.
Unnin hefur verið úttekt á áhrifum Viðskiptaháskólans á nærumhverfi sitt og sveitarfélagið. Þeirri vinnu er lokið með skýrslunni Borgarbyggð og Bifröst – sambúð háskóla og byggðarlags. Skýrsluna verður að finna á www.borgarbyggd.is .
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2002 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar fyrir jól. Samkvæmt fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur ársins 2002 nemi 604 milljónum króna sem er um 8% hækkun á milli ára. Þær skiptast þannig að útsvarstekjur eru áætlaðar 414 milljónir króna, fasteignagjöld 67 milljónir króna og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 123 milljónir króna. Ýmsar þjónustutekjur er áætlaðar um 140 milljónir króna.
Kostnaður við rekstur málaflokka að frádregnum þjónustutekjum nemur 537 milljónum króna. Framlegð fyrir fjármagnsliði nemur samkvæmt áætluninni 67 milljónum króna sem er um 11% af skatttekjum. Rekstraráætlunin einkennist af hækkun launakostnaðar í kjölfar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á árinu 2001 og á móti að fylgt verði aðhaldssemi í rekstri sveitarfélagsins.
Til framkvæmda og fjárfestinga eru áætlaðar um 140 milljónir króna á árinu 2002. Þar vega þyngst áform um byggingu leikskóla á Bifröst. Samkvæmt fjárhagsáætlun Borgarbyggðar eru lántökur á árinu 2002 áætlaðar um 150 milljónir króna en að afborganir eldri lána nemi um 70 milljónum króna. Um síðustu áramót tóku gildi breytingar á reikningsskilum sveitarfélaga sem jafnframt þýða breytingu á framsetningu fjárhagsáætlunar.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sett Borgarbyggð í hóp með 31 sveitarfélagi þar sem gerð er athugasemd við fjárhagsstöðu. Slíkt er vissulega alvarlegt en forsendur þessa koma þó ekki á óvart. Mat nefndarinnar byggir á því að of stór hluti skatttekna fari til reksturs sveitarfélagsins. Í reynd hefur þetta verið viðvarandi ástand síðustu ár en svo vel geti talist eiga ekki meira en 80% skatttekna að fara til rekstrar. Það sem eftir stendur er til greiðslu afborgana og vaxta, auk fjárfestinga. Síðustu ár hefur myndin verið eftirfarandi:
Raun 1998 Raun 1999 Raun 2000 Áætlun 2001 Áætlun 2002
Hlutfall skatttekna sem fer til rekstrar 91,3% 92,1% 88,9% 88,5% 88,9%
Ástæðu athugasemdar nú má kannski einkum rekja til mikilla fjárfestinga á síðustu tveimur árum, annars vegar vegna einsetningar Grunnskólans í Borgarnesi og hins vegar vegna gatnagerðar. Á fundi bæjarstjórnar 14. febrúar s.l. var samþykkt fjárhagsáætlun 2003 – 2005 þar sem gert er ráð fyrir að markmið um hlutfall skatttekna sem varið er til rekstrar verði komið niður í 80% á árinu 2005. Miklar kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga á árinu 2001 valda því að ekki er raunhæft að það markmið náist fyrr.
Íbúum fjölgar
Samkvæmt tölum Hagstofunnar var íbúafjöldi í Borgarbyggð 2.523 þann 1. desember 2001. Hinn 1. desember 2000 voru íbúar Borgarbyggðar 2.468 og varð því fjölgun milli ára um 55 manns eða 2,2%. Fjölgunin er vel yfir landsmeðaltali sem var 1,2% aukning í mannfjölda. Á milli áranna 1999 og 2000 fjölgaði um 47 íbúa í Borgarbyggð. Á tveimur árum hefur íbúum Borgarbyggðar því fjölgað um liðlega 100 eða um 4,2%. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum um 2,7%.
Íbúum í Borgarnesi fjölgaði úr 1.740 í 1.775 eða um 35 milli áranna 2001 og 2000 sem er 2,0% aukning. Í dreifbýlinu var fjölgunin á sama tíma 20 manns eða 2,7% aukning sem verður rakinn til fjölgunar íbúa á Bifröst. Með þessari fjölgun íbúa í Borgarbyggð hefur verið slegið met áranna 1991 – 1993 þegar íbúafjöldinn náði liðlega 2.500 manns, þ.e. í þeim sveitarfélögum sem þá voru og nú mynda Borgarbyggð. Hæst fór íbúatalan í 2.514 árið 1993 en er eins og áður segir 2.523 þann 1. desember 2001.
Staðardagskrá 21
Borgarbyggð hlýtur viðurkenningu
Borgarbyggð hlaut hvatningarverðlaun íslenska Staðardagskrárverkefnisins 2002 sem afhent voru á 5. landsfundi verkefnisins á Akureyri 15. febrúar s.l. Viðurkenningin er veitt fyrir vel skipulagt og markvisst Staðardagskrárstarf síðustu mánuði.
Staðardagskrá 21 er samstarfsverkefni Umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og er heildaráætlun um þróun hvers samfélags fyrir sig. Þessi áætlun er jafnframt forskrift að sjálfbærri þróun. Sjálfbær þróun er rökstudd siðferðisleg afstaða sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða að mæta sínum þörfum.
Það er útbreiddur misskilningur að umhverfismál snúist að mestu leyti um sorp. Efnahagslegir og félagslegir þættir flokkast ekki síður en þeir vistfræðilegu undir hatt umhverfismála. Eitt aðalatriðið í hugmyndafræði Staðardagskrár 21 er að umhverfismál verði aldrei slitin úr samhengi við önnur mál, heldur beri að skoða áhrif mannsins á umhverfi sitt í víðum skilningi.
Borgarbyggð leggur áherslu á að sveitarfélagið verði í fararbroddi í umhverfisstarfi. Þannig samþykkti bæjarstjórnin metnaðarfulla umhverfisstefnu í apríl 2000 þar sem lögð er áhersla á að sveitarfélagið komi sér upp Staðardagskrá 21. Skipaður var stýrihópur verkefnisins og í honum eru Guðbrandur Brynjúlfsson formaður, Ingvi Árnason og Stella A. Kristjánsdóttir. Verkefnisstjóri var ráðinn og tók hann til starfa þann 1. nóvember 2001.
Ákveðið var að taka fyrir 13 málaflokka sem eru: holræsi og fráveitur; úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum; vatnsból og gæði neysluvatns; menningarminjar og náttúruvernd; umhverfisfræðsla í skólum; skipulagsmál; eyðing meindýra; atvinnulífið; opinber innkaup; neyslumynstur og lífstíll; ræktun og útivist; börn og unglingar; og eldri borgarar. Í dag er Borgarbyggð eitt af rúmlega 6000 sveitarfélögum í 113 löndum sem taka þátt í Staðardagskrárverkefninu. 12 íslensk sveitarfélög hafa samþykktar Staðardagskrár, í þessum sveitarfélögum búa 64% íbúa landsins. Vonast er til þess að Borgarbyggð fylli þennan hóp á þessu ári. Verið er að vinna að stöðumati og síðan verða sett fram markmið í hverjum málaflokki fyrir sig.
Eitt af megin markmiðum verkefnisins er að virkja íbúana til þátttöku. Þannig hefur öllum íbúum, félagasamtökum og fyrirtækjum verið boðin þátttaka í tengslahópi. Meðal hlutverka tengslahópsins eru að vera verkefnisstjóra og stýrihópi verkefnisins til ráðgjafar. Hópurinn mun líka gegna stóru hlutverki í markmiðssetningunni. Nú þegar hafa 45 einstaklingar skráð sig í tengslahópinn og alltaf er hægt að bæta við áhugasömu fólki.
Þeir sem hafa áhuga á að starfa í tengslahópnum eða fá nánari upplýsingar um verkefnið eru hvattir til að hafa samband við verkefnisstjórann, Hólmfríði Sveinsdóttur. Símar hjá henni eru 437 1124 og 862 1104. Netfangið er: holmfridur@borgarbyggd.is. Áhugasömum er jafnframt bent á heimasíðu Stefáns Gíslasonar verkefnisstjóra Staðardagskrár 21 á Íslandi, en slóðin er www.samband.is/dagskra21/.
Viðtalstími bæjarfulltrúa verður á bæjarskrifstofunni þriðjudaginn 5. mars kl. 16:00 – 16:40. Bæjarfulltrúarnir Helga Halldórsdóttir, Kristmar J. Ólafsson og Finnbogi Leifsson verða til viðtals.