Frá Orkuveitu Reykjavíkur

september 30, 2013
Áhersla á niðurgreiðslu skulda Orkuveitunnar
 
Orkuveita Reykjavíkur hyggst á næstu árum greiða skuldir fyrirtækisins niður um 80,3 milljarða króna samkvæmt fjárhagsáætlunum sem samþykktar hafa verið í stjórn fyrirtækisins. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 og langtímaáætlun fyrir árin 2015 til og með 2019 er áhersla lögð á áframhaldandi aðhald í rekstrinum meðan staðinn er vörður um grunnþjónustu fyrirtækisins. Áætlunin er í samræmi við Plan fyrirtækisins og eigenda, frá árinu 2011. Engin stakkaskipti verða í starfseminni eftir að tímabili þess lýkur, í árslok 2016.
 
Sparnaður í rekstri Orkuveitunnar hefur skilað góðum árangri undanfarin ár og telja stjórnendur fyrirtækisins að núverandi umfang henti viðfangsefnum þess. Orkuveitan rekur vatnsveitur, hitaveitur, rafmagnsveitur og fráveitur í um 20 sveitarfélögum auk þess að framleiða orku í fjórum virkjunum. Fyrirhugaðar fjárfestingar á næstu árum eru einkum í veitukerfum en líka í umhverfisverkefnum við virkjanirnar tvær á Hengilssvæðinu.
Eins og ákveðið var með Planinu, vorið 2011, er gert ráð fyrir að gjaldskrár Orkuveitunnar fylgi verðlagi. Á árunum 2005 til 2010 rýrnuðu gjaldskrár fyrir rafmagn og heitt vatn um u.þ.b. þriðjung. Aðrar forsendur fjárhagsáætlunar eru í samræmi við þjóðhagsspá. Ljóst er að þróun ytri þátta, svo sem gengis, vaxta og álverðs, getur raskað þeim áformum sem í þeim birtast. Þung skuldabyrði í erlendum gjaldmiðlum gerir fyrirtækið viðkvæmara fyrir sveiflum þessara þátta, jafnvel þótt brugðist sé við með áhættuvörnum.
 
Fjárhagsáætlun Orkuveitu Reykjavíkur 2014 og fimm ára áætlun 2015 – 2019, sem stjórn Orkuveitunnar samþykkti föstudaginn 20. september, fer nú til umfjöllunar hjá Reykjavíkurborg sem hluti af fjárhagsáætlunum samstæðu Reykjavíkurborgar.
 
Hér má sjá fjárhagsáætlun Orkuveitu Reykjavíkur 2014 og fimm ára áætlun 2015-2019
 
 
 

Share: