Aukin framleiðsla á endurnýtanlegri orku og tryggur flutningur orku um land allt er hagsmunamál þjóðarinnar, ein forsenda verðmætasköpunar og aukinna útflutningstekna. Leggja verður ríka áherslu að tryggt sé að nærsamfélög njóti eðlilegs ávinnnings af þeim orkumannvirkjum sem reist eru í viðkomandi samfélagi. Það er hagsmunamál allra landsmanna enda ein forsenda þess að haldið verði áfram að rjúfa kyrrstöðu í málaflokknum.
Hugmyndir um nýja orkuframleiðslu og öflugra og öruggara dreifikerfi varða skipulagsmál í sveitarfélaga. Borgarbyggð er sjötta víðfeðmasta sveitarfélag landsins og víðfeðmasta sveitarfélagið á suðvestanverðu landinu. Orkumál koma því inn á borð sveitarfélagsins með einum eða öðrum hætti. Skipulagsvaldi fylgir rík ábyrgð og ekkert sveitarfélag vill standa í vegi fyrir verðmætasköpun og orkuöryggi í íslensku samfélagi. Framhjá því verður hins vegar ekki litið að mannvirki til orkuvinnslu- og flutninga hafa veruleg áhrif á sín nærsamfélög og rýra oft á tíðum verðmæti í eigu þeirra sem verða fyrir. Það er augljóst að það land sem liggur best til orkudreifingar geymir auðlind með sama hætti og land sem býður upp á kosti til orkuframleiðslu. Það er sanngjarnt að gera kröfu um að slíkt enduspeglist í leiguverði eða matsverði.
Ein meginástæða þess að hve illa hefur gengið að skapa sátt um aukna orkuframleiðslu og -dreifingu er að ávinningur sveitarfélaga, landeigenda og annarra sem verða fyrir áhrifum hefur ekki verið festur í hendi. Þessu sjónarmiði er ítrekað haldið á lofti í samskiptum við fyrirtæki í orkuframleiðslu- og flutningi, við þingmenn og ráðherra í málaflokknum. Þetta sjónarmið nýtur sem betur fer vaxandi skilnings. Í tíð fráfarandi ríkisstjórnar var ekki lokið við að skapa nauðsynlega umgjörð um ávinning nærsamfélaga. Ný ríkisstjórn leggur áherslu á aukna orkuöflun, sterkara flutningskerfi og bætta orkunýtni. Í stjórnarsáttmála kemur fram að auðlindastefna verði mótuð þannig að réttlát auðlindagjöld renni til nærsamfélags og að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum renni til nærsamfélagsins.
Ég bind miklar vonir við að þessi stefna verði útfærð þannig samfélagslegur ábati og verðmætasköpun sem hlýst af nýjum mannvirkjum í orkuframleiðslu- og dreifingu skili sér með eðlilegum hætti til nærsamfélaga.
Í lokin er rétt að fram komi vegna nýlegs fréttaflutnings að endanleg útfærsla á endurnýjun Holtavörðuheiðarlínu hefur ekki verið tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Þá kemur fram í vinnslutillögu að nýju aðalskipulagi Borgarbyggðar að ekki verði teknar til umfjöllunar tillögur að vindorkuveri nema þær séu innan nýtingarflokks rammaáætlunar.