Í gær (fimmtudag) var formlega opnuð ný tískuverslun í Borgarnesi. Verslunin sem ber nafnið “Yfir 46” er á besta stað í bænum, að Borgarbraut 55, í sama húsi og Efnalaugin Múlakot.
Yfir 46, hefur að bjóða (eins og nafnið bendir til) föt fyrir konur í fullri stærð. Eigendur verslunarinnar eru Sigrún Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Efnalaugarinnar Múlakots í Borgarnesi og Inger Helgadóttir ferðaþjónustubóndi á Indriðastöðum í Skorradal.
Þær stöllur segja tvær ástæður vera fyrir því að þær réðust í að opna tískuverslun. “Í fyrsta lagi þekkjum við það af eigin raun að það er oft meira en að segja það fyrir þroskaðar konur að fá á sig tískuföt og þær hafa þurft að sætta sig við mun minni fjölbreytni og jafnvel að þurfa að ganga í því sem að þeim er rétt. Þessu vildum við breyta,” segir Inger. “Hin ástæðan,” segir Sigrún, “er sú að ég hafði laust húsnæði hér við hliðina á efnalauginni og í raun fæddist þessi hugmynd þegar við fluttum hérna inn fyrir sex árum.” Sigrún ítrekaði hinsvegar að efnalaugin yrði að sjálfsögðu rekin áfram enda ætti þessi rekstur vel saman og samlegðaráhrifin augljós. “Ég reikna með að hafa þetta heimilislegt og skipta um rennilása frammi í búðinni milli þess sem ég afgreiði.” Hún tók líka fram að áhersla væri lögð á þægilegt andrúmsloft og góða aðstöðu. “Við erum örugglega með eina stærstu mátunarklefa sem finnast í tískuverslunum á Íslandi. Svo erum við með þægilega stóla fyrir karlana á meðan þeir bíða og kaffi og blöð. Það á engum að þurfa að líða illa í fatabúðum,” segir Sigrún.
Í Yfir 46 verða fyrst um sinn á boðstólnum kvenföt og fylgihlutir en þær stöllur, Sigrún og Inger, útiloka ekki að herrafötin fylgi á eftir ef vel gengur.
Fullt var út úr dyrum við opnunina og ljóst að Borgnesingar og íbúar nærliggjandi byggðarlaga kunna vel að meta þessa viðbót í þjónustuflóruna. Þess má reyndar geta að eftir því sem Sigrún og Inger segja er markaðssvæði Yfir 46 allt Norðvesturkjördæmi og Höfuðborgarsvæðið og í raun landið og miðin ef því er að skipta. (FRÉTTATILKYNNING)
Meðfylgjandi myndir tók Gísli Einarsson við opnunina.