Nú styttist heldur betur í Borgfirðingahátíðina. Systrakvartettinn úr Borgarnesi tók forskot á sæluna með tónleikum í Borgarneskirkju laugardaginn 8. júní. Var þar um að ræða nokkurskonar “forleik að Borgfirðingahátíð”. Kvartettinn skipa tvö systrapör úr Borgarnesi, þær Jónína Erna og Unnur Arnardætur og Theódóra og Birna Þorsteinsdætur. Á tónleikunum spilaði dóttir Birnu, Anna Sigríður Þorvaldsdóttir, á selló með þeim í nokkrum lögum. Tónleikarnir voru vægast sagt frábærir. Stelpurnar nutu þess greinilega að syngja fyrir áhorfendurna, sem að fögnuðu þeim óspart. Þetta er kvartett sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.