Jólaútvarpið FM Óðal, jólaútvarp barna í grunnskólum Borgarbyggðar, hefst í dag kl. 10.00 og standa útsendingar fram á föstudag. 15. desember. FM Óðal sendir út á 101.3 og slóðin er www.odal.borgarbyggd.is, fyrir þá sem vilja notfæra sér tölvutæknina til að hlusta.
Útvarpsstöðin ber nafn félagsmiðstöðvar unglinga í Grunnskóla Borgarness, en nemendafélagsstjórnum hinna skólanna í Borgarbyggð; Kleppjárnsreykjum og Varmalandi ásamt Laugargerði er boðið að vera með þátt í útvarpinu þar sem fram kemur kynning á félagslífi á hverjum stað.
Jólaútvarpið er löngu orðinn fastur liður í íslenskunámi nemenda, sem þjálfast með þessu í að semja texta og flytja hann. Einnig er um að ræða margs konar tónlistarflutning, svo sem heimagerðar auglýsingar FM Óðals fyrir borgfirsk fyrirtæki og stofnanir, en þær hafa vakið sérstaka athygli hlustenda.
Jólaútvarpið hefst með ávarpi útvarpsstjóra, sem þetta árið er Elvar M. Ólafsson, sem jafnframt er formaður nemendafélags Grunnskóla Borgarness.