Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar 2012 – fyrri umræða

nóvember 21, 2011
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum 16. nóvember s.l. að vísa fjárhagsáætlun Borgarbyggðar til síðari umræðu sem fram fer 8. desember n.k.
Í forsendum fjárhagsáætlunar Borgarbyggðar er gert ráð fyrir að skatttekjur hækki um tæp 6% og verði 1929 milljónir, aðrar tekjur hækka einnig og verða 535 milljónir. Alls er því gert ráð fyrir hækkun tekna upp á tæp 8%. Á fundinum var samþykkt að álagning útsvars verði 14.48%, en álagningarprósenta fasteignagjalda verður rædd í byggðarráði á milli umræðna.
Áætlaður rekstrarkostnaður hækkar m.a. í kjölfar nýrra kjarasamninga, en gert er ráð fyrir að launkostnaður, annar rekstrarkostnaður og afskriftir verði alls 2185 milljónir og hækki um 7%. Þetta þýðir að rekstarniðurstaða án fjármagnsliða er jákvæð um 229 milljónir, en að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar sem er áætlaður 275 milljónir verður rekstrarniðurstaða neikvæð um 46 milljónir. Framlegð frá rekstri er tæp 13%.
Áætlað er að sveitarsjóður verji 50 milljónum til nýframkvæmda og fjárfestinga. Helstu kostnaðarliðir verða við frágang gatna og gangstétta í nýlegum hverfum, þá er áætlað að kaupa stofnfé í Háskólanum á Bifröst og hlutafé í reiðhölinni Vindási í samræmi við samninga þar um. Áfram verður unnið að uppbyggingu hjúkrunarálmu við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi, en framkvæmdum mun ljúka sumarið 2012. Borgarbyggð fjármagnar framkvæmdirnar en ríkið endurgreiðir 85% af byggingarkostnaði með langtíma leigusamningi. Kostnaður við framkvæmdir við hjúkrunarálmuna er áætlaður um 140 milljónir árið 2012. Fjárfestingar við hjúkrunarálmu falla ekki undir sveitarsjóð, en um hjúkrunarálmuna er stofnað sérstakt B-hluta fyrirtæki í samræmi við reglur um reikningssskil sveitarfélaga enda er framkvæmdin og rekstur að lang stærstum hluta kostuð af ríkinu.
Helstu kennitölur í sjóðsstreymi sýna að veltufé frá rekstri er áætlað tæpar 200 milljónir eða 10.3%. Afborganir lána eru áætlaðar 264 milljónir og nýjar lántökur sveitarsjóðs eru áætlaðar 130 milljónir og lántökur vegna byggingar hjúkrunarálmu 208 milljónir.
Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að fela sveitarstjóra í samvinnu við byggðarráð að vinna tillögu að því hvernig draga megi úr þeim rekstarhalla sem er á áætlun við fyrri umræðu.
 

Share: