Ferðaþjónustufyrirtæki í Borgarbyggð hljóta umfjöllun á alþjóðavísu

febrúar 21, 2022
Featured image for “Ferðaþjónustufyrirtæki í Borgarbyggð hljóta umfjöllun á alþjóðavísu”

Sveitarmarkaðurinn Ljómalind fékk hin virtu Prestige Awards 2021/2022 fyrr í mánuðinum fyrir að vera sveitarmarkaður ársins. Uppgangur Ljómalindar hefur verið mikill undanfarin ár og eru þau vel að þessari viðurkenningu komin. Líkt og margir vita býður Ljómalind upp á vörur úr Borgarbyggð og Vesturlandi öllu. Það er matsnefnd sem sér um að velja vörur á markaðinn hverju sinni, um er að ræða gæðamat til þess að tryggja gæði vara. Hægt er að fara í Ljómalind með hópa í heimsókn þar sem boðið er upp á smakk úr héraði.

Giljaböðin í Húsafelli eru síðan útnefnd fyrir að vera eitt af því besta sem hægt er að upplifa á ferðalögum á heimsvísu árið 2022. Um er að ræða lista sem ferðaskrifstofan Culture Trip gaf út fyrr í mánuðinum en stofan sérhæfir sig í að vekja athygli á og bjóða upp á ferðalög þar sem áhersla er lögð á menningartengda afþreyingu. Giljaböðin hafa lengi verið eitt af perlum Borgarbyggðar og vinsælt aðdráttarafl fyrir bæði innlenda og erlenda ferðamenn. Það er ánægjulegt að afþreyingin fái þessa verðskulduðu athygli sem verður vonandi til þess að enn fleiri ferðamenn komi og heimsæki Giljaböðin og aðra ferðaþjónustu í héraðinu.

Borgarbyggð óskar báðum aðilum innilega til hamingju með framangreint og verðskuldaða athygli.


Share: