Falleg stund við tendrun jólatrés í Borgarnesi fyrsta dag aðventu

desember 1, 2008
Margir lögðu leið sína í Borgarnes í gær þegar kveikt var á ljósunum á jólatré Borgarbyggðar við hlið ráðhúss. Að þessu sinni voru það tvíburarnir Andri Steinn og Aron Ingi Björnssynir sem sáu um að kveikja ljósin með aðstoð föður síns Björns Bjarka Þorsteinssonar, sem flutti ávarp í upphafi athafnar. Veðrið var gott og stillt, en nokkuð kalt, svo fólki þótti gott að drekka heitt súkkulaði sem 9. bekkur Grunnskólans í Borgarnesi sá um. Það voru nemendur Laugargerðisskóla sem sáu um tónlistarflutning undir stjórn og með dyggri þáttöku kennara síns, Steinunnar Pálsdóttur. Söngurinn hljómaði vel og krakkarnir stóðu sig frábærlega. Jólasveinarnir komu líka og glöddu börnin með söng og eplum, en að þessu sinni höfðu þeir stolist frá Grýlu í leyfisleysi svo hún var ekki með þeim.
Það voru bílstjórarnir Einar Páll Pétursson og Júlíus Jónsson sem sáu um að útvega bíl sem svið fyrir athöfnina og HS verktak hafði verklega umsjón. Tæknimál annaðist Sigurþór Kristjánsson ásamt Atla Aðalsteinssyni. Síðast en ekki síst má nefna að Lögreglan í Borgarnesi stóð vaktina til að gæta öryggis gesta. Öllum þessum aðilum er hér með þakkað þeirra góða framlag.
 
Myndir: Helgi Helgason

Share: