Eldborgin afhent

ágúst 18, 2008
Eins og fram hefur komið hér á síðunni var því fagnað í Safnahúsi Borgarfjarðar s.l. föstudag að safnið eignaðist stórt líkan af skipinu Eldborginni. Það voru þeir Sigvaldi Arason og Gunnar Ólafsson fyrrverandi skipstjóri skipsins sem höfðu forgöngu um smíði líkansins og komu þess í Borgarnes. Fyrir utan tilstyrk sveitarfélagsins að verkefninu studdu það eftirtaldir aðilar í héraði og eru þeim færðar innilegar þakkir fyrir gott framtak: Borgarplast, Borgarverk, Bragi Jóhannsson og Kristín Jónasdóttir, Faxaflóahafnir, Gunnar Ólafsson, Gösli ehf, Haukur Júlíusson og Ingibjörg Jónasdóttir, Hótel Borgarnes, S.Ó. Húsbyggingar, Kaupfélag Borgfirðinga, Loftorka, Lögfræðistofa Inga Tryggvasonar, Sigvaldi Arason, Sjóvá, Sparisjóður Mýrarsýslu og Stéttarfélag Vesturlands.
Á meðfylgjandi myndum má sjá Gunnar Ólafsson í ræðustól annars vegar (ljósmyndir á sýningunni Börn í 100 ár í baksýn)og hins vegar líkanið sjálft, en það verður nú haft til sýnis við anddyri bókasafns í Safnahúsi um óákveðinn tíma ásamt ýmsum tengdum myndum og gögnum.
Eldborgin var gerð út frá Borgarnesi í um 20 ára skeið fram yfir 1950. Skipið var farsælt í siglingum sínum og sigldi það mikinn hluta þessa tíma undir stjórn Ólafs Magnússonar skipstjóra og svo Gunnars sonar hans. Það var að lokum selt til Noregs og kom á Íslandsmið til síldveiða lengi eftir það.
Margir komu í Safnahús til að fylgjast með afhjúpun líkansins, og mátti þar sjá ýmsa sem annað hvort höfðu verið skipverjar á Eldborginni eða tengdust henni með öðrum hætti. Safninu væru einnig færðar góðar gjafir, mynd af Eldborginni á siglingu og kíki og loftvog úr skipinu.
Ljósmyndari: Jón Guðbjörnsson.
 
 

Share: