Eineltiskönnun í Grunnskólanum í Borgarnesi

maí 11, 2009
Um nokkurra ára skeið hefur eineltiskönnun verið lögð fyrir nemendur í 4. – 10. bekk Grunnskólans í Borgarnesi. Líkt og áður var könnun lögð fyrir í lok febrúar nú í ár. Í fyrsta skipti var könnunin lögð fyrir á rafrænu formi sem auðveldar úrvinnslu mikið. Könnuninni var einnig breytt nokkuð frá fyrri könnunum sem gerir það að verkum að samanburður er ekki marktækur á milli ára. Það voru deildarstjórarnir Gunnhildur Harðardóttir og Ragnhildur Kristín Einarsdóttir sem héldu utan um vinnu og eftirfylgni við könnunina.
Þátttakendur í könnuninni voru 199. Niðurstöðurnar sýna að langflestum nemendum eða 88 % líður vel eða mjög vel í skólanum eða í sínum bekk. Þá eiga 96% nemenda vin í skólanum. Ríflega þriðjungur nemenda segist vita af einelti í skólanum og segja það fara fram á göngum og á lóð skólans, í íþróttahúsi, í matsal og í skólabílum. Í stuttu máli má segja að í þeim bekkjum þar sem könnunin var lögð fyrir megi finna gerendur og/eða þolendur eineltis. Við spurningunni „Hefur þú verið lagður í einelti á þessu skólaári,“ er svörun nemenda á þann veg að 17 nemendur segjast hafa orðið fyrir einelti á þessu skólaári, einu sinni í mánuði, oft í viku eða daglega. Þá kemur einnig fram að gerendur eru flestum tilvikum í sama bekk og þolendur.
Til að bregðast við þessum niðurstöðum hefur eftirfylgni við könnunina verið í gangi tvo síðustu mánuði. Niðurstöður könnunarinnar hafa verið kynntar öllum starfsmönnun, skólabílstjórum, starfsfólki Íþróttamiðstöðvar og foreldrum. Kennarar hafa unnið eftir aðgerðaráætlun með sínum bekkjum, haldið bekkjarfundi reglulega þar unnið er með markvisst með efni um einelti. Niðurstöður hafa verið kynntar í bekkjum og fundað hefur með nefndum gernendum og þolendum og foreldrum þeirra.
Á kynningarfundunum var leitað leiða til úrbóta. Sumar eru nú þegar komnar til framkvæmda, aðrar eru í vinnslu og enn aðrar bíða næsta skólaárs. Ein af þeim hugmyndum sem kom fram á fundi með foreldrum var að búa til netfang þar sem nemendur og foreldrar gætu rætt áhyggjuefni sín við einhvern sem stæði til hliðar við skólann. Nú hefur verið stofnað netfangið nemandi@grunnborg.isí þessum tilgangi og hafa Sigurður Ragnarsson, sálfræðingur og Íris Sigmarsdóttir, hjúkrunarfærðingur ein aðgang að því.
Ákveðið hefur verið að eineltiskönnunin verði lögð fyrir í nóvember á næsta skólaári þannig að meiri tími gefist til eftirfylgni og vinnu út frá niðurstöðum. Það er nauðsynlegt að allir, nemendur, foreldrar og starfsfólk skóla, leggist á eitt við að uppræta einelti á raunhæfan og uppbyggilegan hátt. Með þessu framtaki er það von stjórnenda skólans að okkur miði áfram í þeim einbeitta vilja að líða ekki einelti í skólanum og það er mat okkar að Uppbyggingastefnan, sú uppeldisstefna sem við vinnum eftir í skólanum, stuðli að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum sem er undirstaðan að góðum skólabrag.
 

Share: