Draumasveitarfélagið

febrúar 12, 2008
Nýverið birti vikuritið Vísbending, tímarit um viðskipti og efnahagsmál, úttekt sína á draumasveitarfélaginu. Í úttektinni er stuðst við ársreikninga sveitarfélaga á árinu 2006 og skoðaðar fimm kennitölur; álagning útsvars, íbúaþróun, rekstrarafkoma, hlutfall skulda af tekjum og veltufjárhlutfall.
Niðurstaða þessarar úttektar er sú að Borgarbyggð fær einkunnina 3,1 og er í 32. sæti af 38 sveitarfélögum. Ef rýnt er í þessa niðurstöðu kemur eftirfarandi í ljós.
Hvað varðar útsvarsprósentuna í Borgarbyggð var hún 13,03% eða í hámarki líkt og í tæplega 78% sveitarfélaga á Íslandi. Þetta gaf Borgarbyggð 0 stig.
Samkvæmt framsetningu Vísbendingar var íbúafjölgun langt umfram það sem æskilegt er. Þar er gengið út frá því að íbúafjölgunin hafi verið 990 manns sem er auðvitað ekki rétt. Hið rétta er að fjölgunin var 148 manns sem er 4,25%. Útreikningur Vísbendingar virðist byggður á íbúafjölda í Borgarbyggð fyrir sameiningu og síðan í sameinaðri Borgarbyggð (þ.e. Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppi og Kolbeinsstaðahreppi) og því verður íbúafjölgunin óeðlilega mikil. Viðmiðun Vísbendingar er að æskileg íbúafjölgun sé 1,6 til 3,6% og því ætti íbúafjölgun að gefa Borgarbyggð 9 stig í þessari úttekt, en ekki 0 eins og framsetning Vísbendingar er.
Rekstrarafkoma sveitarfélagsins á árinu 2006 var neikvæð um 3% sem gefur Borgarbyggð ekkert stig þar sem Vísbending telur æskilegt að rekstrarafkoma sé jákvæð um 10%.
Hlutfall skulda af tekjum er 1,23 hjá Borgarbyggð árið 2006, en samkvæmt viðmiðunum Vísbendingar er æskilegast að þetta hlutfall sé um 1,0. Borgarbyggð fékk 8 stig.
Veltufjárhlutfall Borgarbyggðar árið 2006 var 1,32 en við sameiningu áttu sveitarfélögin öll töluvert handbært fé. Vísbending telur að þarna þurfi hlutfallið að vera sem næst 1,0 sem segir að lausafjárstaðan sé góð og ekki of mikið af peningum í lélegri ávöxtun. Þessi liður gaf Borgarbyggð 8 stig.
Samtals fékk Borgarbyggð 16 stig fyrir þessar fimm kennitölur, sem Vísbending kýs að skoða sem viðmið fyrir draumasveitarfélagið, eða einkunnina 3,1. Hefði Vísbending hins vegar notað réttar forsendur varðandi útreikning á íbúafjölgun hefði Borgarbyggð fengið 9 stig til viðbótar eða 25 stig samtals. Það hefði gefið Borgarbyggð einkunnina 5 eða 12. sætið hjá Vísbendingu, en ekki einkunnina 3,1 og 32. sætið.
Mynd: Magnús Guðjónsson
 
 

Share: