Draumalandið – Nýbreytnistarf í unglingadeild Grunnskólans í Borgarnesi

september 27, 2019
Featured image for “Draumalandið – Nýbreytnistarf í unglingadeild Grunnskólans í Borgarnesi”

Unglingadeild Grunnskólans í Borgarnesi hefur verið með tímabundið aðsetur í Menntaskóla Borgarfjarðar frá skólabyrjun í haust. Hafa kennarar gripið tækifærið til að nota nýja kennsluhætti  og virkja sköpun og frumkvæði nemenda. Ákveðið var að vinna að verkefninu Draumalandið til að gera námið áhugavert og skemmtilegt og um leið efla samvinnu, samskipti og virðingu nemenda í nýju umhverfi.

Verkefnið Draumalandið felur í sér að unnið er að  heildstæðum verkefnum tengdum t.d. nærumhverfinu, atvinnulífinu og alþjóðasamfélaginu. Sú verkefnavinna hefur staðið yfir í rúman mánuð þar sem markmiðið hefur verið að fræðast eða finna lausnir á raunverulegum vandamálum sem geta blasað við okkur í daglegu lífi. Markmiðið var að nemendur myndu rannsaka, vera skapandi og þróa með sér góða hæfni til samvinnu með öðrum auk þess að nýta þekkingu sína í ferlinu. Í þessu ferli voru hina hefðbundnu námsgreinar fléttaðar saman inn í vinnuna. Nemendur hafa verið að vinna í hópum, þvert á bekki og árganga og hafa því kynnst betur. Þeir hafa teiknað og búið til líkan af draumalandinu sínu.

Unglingadeildin bauð foreldrum og öðrum áhugasömum á sýningu á Draumalandinu í Hjálmakletti í vikunni og höfðu þeir búið til kynningu þar sem þeir sögðu frá þjóðinni sem býr í landinu, stjórnskipulagi, samfélagsgerð, auðlindum, atvinnu, innviðum, menningu, landafræði og öllu því sem gerir land að landi og samfélag að samfélagi. Aðalatriðin úr kynningunni höfðu nemendur gert á ensku og dönsku auk íslensku. Þeir höfðu bætt  við  ljósmyndum, teikningum og myndböndum til að lýsa betur draumalandinu sínu.


Share: