Dekkjakurl á sparkvöllum

október 2, 2015
Sveitarfélagið Borgarbyggð er meðvitað um umræðu um hættu á notkun gúmmíkurli úr notuðum hjólbörðum á íþrótta-og leiksvæðum og tekur hana alvarlega. Sveitarfélagið hefur leitað upplýsinga um málið hjá KSÍ auk þess sem óskað hefur verið eftir áliti sambandsins á notkun gúmmíkurls almennt. Unnið er að málinu innan KSÍ og von er á upplýsingum þaðan síðar í haust. Fylgst verður með umræðum og rannsóknum sem gerðar eru á mögulegri hættu á notkun efnisins.
Dekkjakurl er notað víða um heim á íþróttavelli og leiksvæði. Þrátt fyrir ítarlegar og margvíslegar rannsóknir um efnið þá hefur ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að notkun þess hafi heilsuspillandi áhrif á notendur eða neikvæð áhrif á lífríki enda standist gerð valla og leiksvæða allar kröfur um frágang. Hins vegar liggja heldur ekki fyrir rannsóknir sem sýna fram skaðleysi með óyggjandi hætti.

Í Borgarbyggð eru nú þrír sparkvellir sem allir eru með gervigras og fyllingu úr kurluðum hjólbörðum. Völlurinn við Grunnskólann í Borgarnesi var vígður í nóvember 2004 og vellirnir á Bifröst og á Hvanneyri í júní 2008.

Skipt var um gúmmíkurl í gervigrasinu á sparkvellinum við Grunnskólann í Borgarnesi árið 2013. Gúmmíkurlið er síað í ákveðna kornastærð og rykhreinsað fyrir notkun og er hannað til að þola mikinn núning, er slitsterkt og gefur þ.a.l. lítið frá sér af skaðlegum efnum. Gúmmíið er prófað og vottað af þriðja aðila. Niðurstöður þeirra prófana sem sveitarfélagið hefur undir höndum, sýna að efnið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til gúmmíkurlsins sem fyllingarefni í gervigras á leikvöllum og íþróttasvæðum til notkunar utanhúss. Það uppfyllir kröfur franska staðalsins NF-P 90-112, þýska DIN108035-7, EN15330-1, viðmiðunarstaðal alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA og IRB handbókar.

Share: