Í dag er þess minnst að 200 ár eru liðin frá því að Jónas Hallgrímsson fæddist og um nokkurt skeið hefur verið haldið upp á dag íslenskrar tungu á afmælisdegi skáldsins. Í flestum skólum landsins er haldið upp á daginn með stórum sem smáum viðburðum meðal annars með upplestrarkeppni, sögustund og ljóðagerð. Það er vel til fundið að tileinka íslenskri tungu afmælisdag þess manns sem öðrum fremur byggði upp með þjóðinni sjálfstraust og stolt yfir landi sínu og menningararfi.
Ásta
Ástkæra, ylhýra málið,
og allri rödd fegra,
blíð sem að barni kvað móðir
á brjósti svanhvítu;
móðurmálið mitt góða,
hið mjúka og ríka,
orð áttu enn eins og forðum
mér yndið að veita.
—
Skólar í Borgarbyggð halda upp á dag íslenskrar tungu á dagskrá er meðal annars:
Grunnskólinn í Borgarnesi
Nemendur í 10. bekk sjá um dagskrána og verður hún helguð Jónasi Hallgrímssyni. Nemendur bekkjanna hafa unnið verkefni í skólanum tengd ljóðum hans, sögum og æviferli. Síðustu vikur hafa nemendur, með aðstoð íslenskukennara sinna, Margrétar Jóhannsdóttur og Ragnhildar Kristínar Einarsdóttur, samið ljóð og leikrit til flutnings. Sum eru nokkuð nýstárleg. Stofnaður hefur verið kór í 10. bekk sem nýtur leiðsagnar Steinunnar Árnadóttur, organista.
Dagskráin sem æfð hefur verið í tilefni dagsins verður sýnd tvisvar fyrir nemendur grunnskólans í Félagsmiðstöðinni Óðali. Fyrri sýningin verður kl. 9:30 og sú síðari kl. 12:30.
Leikskólinn Klettaborg
Fyrir hádegi koma nemendur 4. bekkjar Grunnskólans í Borgarnesi í heimsókn og lesa fyrir leikskólabörnin.
Eftir hádegi fara elstu börn leikskólans til aldraðra í félagsstarfi. Þar mun þau syngja, fara með ljóð/þulur og spjalla við eldra fólk í Borgarnesi.
Leikskólinn að Varmalandi
Í tilefni dagsins verða lesnar íslenskar þjóðsögur og þulur fyrir börnin.
Grunnskóli Borgarfjarðar á Hvanneyri
Nemendur Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri bjóða fjölskyldum sínum á kaffihús í skólanum, þar sem boðið verður upp á ilmandi kaffi, kleinur og flatkökur með hangikjöti. Boðið verður upp á menningarveislu á þjóðlegum nótum. Nemendur flytja frumsamin ljóð, segja frá ævi Jónasar Hallgrímssonar, syngja ættjarðarljóð, leika á hljóðfæri og vera má að nokkrir brandarar eða draugasögur fái að fylgja í kjölfarið. Kaffihús 1.-3. bekkjar verður opið frá 8:45 – 9:45 en kaffihús 4.-5. bekkjar frá 10:15 – 11:15.
Leikskólinn Hraunborg
Í Hraunborg verður farið í Hátíðarsal Háskólans á Bifröst og sungin fáein vel valin íslensk lög. Fjórði bekkur Varmalandsskóla kemur einnig og syngur fáein lög sem þau hafa æft.
Á eftir tekur foreldrafélagið við dagskránni og ætlar að sýna íslensku bíómyndina “Litla lirfan ljóta”
Varmalandsskóli
Hver íslensku kennari sér um eitthvað sérstakt með sínum bekk. En nemendur 4. bekkjar munu fara upp á Bifröst og taka þátt í dagskrá með Hraunborgarkrökkunum í hátíðarsal Háskólans á Bifröst. Þau ætla að m.a að syngja og fara með ljóð. Nemar í 5. bekk taka þátt í ljóðasýningu Safnahússins í Borgarnesi.Viðfangsefni ljóðanna sem send voru eru margbreytileg enda var börnunum gefnar nokkuð frjálsar hendur með val á yrkisefni. Unglingadeildarnemendur munu kynna sér nýopnaðan vef jónas.ms.is og velja ljóð og vinna með þau.
Leikskólinn Andabær
Í Andabæ verður sex ára börnunum úr Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri boðið í heimsókn og sungin verða fyrir þau nokkur gömul góð íslensk lög m.a. ,,Sofðu unga ástin mín” og ,,Krumminn á skjánum” Gestirnir munu síðan bjóða gestgjöfum upp á söngdagskrá. Leikskólinn mun bjóða upp á grænmeti.
Laugargerðisskóli
Hátíðardagskrá Laugargerðisskóla verður haldin 21. nóvember þar sem yngstu börnin eru ekki í skólanum á föstudögum og 6. og 7. bekkur eru þessa viku í Reykjaskóla. Á hátíðarsamkomunni verða ljóð og söngvar leiknir og sungnir fyrir foreldra. Nemendur 4. 5. og 6. bekkjar hafa sent inn myndskreytt ljóð í ljóðasamkeppni sem haldin verður í Safnahúsinu í Borgarnesi á ,,Degi íslenskrar tungu”.