Dagbók sveitarstjóra – vika 41 og 42

október 19, 2021
Featured image for “Dagbók sveitarstjóra – vika 41 og 42”

Kæru íbúar

Í haust var ákveðið að stíga næsta skrefið í upplýsingamiðlun og hefja dagbók sveitarstjóra í þeim tilgangi að veita íbúum innsýn í stjórnsýsluna. Í dagbók sveitarstjóra ætla ég að fara yfir helstu verkefnin sem eru á mínu borði hverju sinni.

Í morgun fór ég í fyrstu formlegu ferðina í samþættu leiðarkerfi sveitarfélagsins. Um er að ræða spennandi verkefni sem er loksins orðið að veruleika eftir margra mánaða vinnu. Hægt er að lesa nánar um verkefnið hér.

Í dag funda byggðarráðsfulltrúar með körfuboltadeild Skallagríms vegna fjárhagsstöðu félagsinss

Fjárhagsáætlunargerð sveitarfélagsins er í fullum gangi og verða vinnufundir bæði meðal starfsfólks ráðhússins og síðan stjórnenda með sveitarstjórnafulltrúum í vikunni. Fjárhagsáætlun 2022 verður vísað af byggðarráðsfundi til fyrri umræðu í sveitarstjórn Borgarbyggðar í lok október.

Á fimmtudaginn verður byggðarráðsfundur þar sem m.a. verður fundað með Hestamannafélaginu Borgfirðing vegna rekstur reiðhallarinnar Vindás.

39. Landsþing Kvenfélagssambands Íslands fór fram í Borgarbyggð um helgina og hélt ég ræðu í tilefni þess. Ég bauð kvenfélagskonum velkomna í fallega sveitarfélagið okkar og talað um mikilvægi starfsemi félagastarfs, og hvað markmið kvenfélagasamtaka séu göfug. Um er að ræða vettvangur sem hvetur konur til að hafa áhrif ásamt því að leggja góðum málefnum lið. Ég ræddi einnig um jafnrétti kynja og hvað konur og karlar geta gert til þess að bæta jafnrétti kynja. Það er mikilvægt að við séum uppbyggjandi, tölum hvor aðra ekki niður og gerum ekki meiri kröfur til karla en konur. Ég tel mikilvægt að við breytum gömlu orðatiltæki og tileinkum okkur það að konur séu konum bestar. Í lokin var ég þess aðnjótandi að horfa á sýningu hjá Danshópnum Sporið sem sýnir íslenska þjóðdansa, en danshópinn skipa danspör úr Borgarbyggð og nágrenni. Þau dansa í íslenskum upphlut og hátíðarbúningi íslenskra karlamanna. Ég mæli eindregið með að íbúar fari á sýningu hjá þeim næst þegar tækifæri gefst, sjón er sögu ríkari.

Það var sveitarstjórnarfundur í síðustu viku og hægt er að sjá upptöku af fundinum hér. Á fundinum var meðal annars talað um að halda íbúafund í tengslum við fjárhagsáætlunargerð og verður tekin ákvörðun um slíkan fund síðar í vikunni. Nánari upplýsingar munu birtast inn á heimasíðu Borgarbyggðar.

Í síðustu viku voru einnig tekin fyrstu skref við endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar. Við fengum kynningu frá sex stofum sem hafa áhuga á að vinna það verkefni, nú er hafin vinna við að meta stofurnar.

Forsvarmenn Upplifunargarðsins héldu kynningarfund í Hjálmakletti á þriðjudaginn í síðustu viku og kynntu áform sín um uppbyggingu garðsins í Borgarnesi, sem verður að hluta byggð á hugmyndafræði LazyTown. Um er að ræða virkilega spennandi verkefni sem nýtur stuðnings sveitarfélagsins og vonandi verður hægt að hefjast handa fyrr heldur en síðar enda um að ræða mikla lyftistöng fyrir sveitarfélagið og íbúa.

Annað sem má einnig helst nefna er fundur með Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem embættismenn fengu kynningu á skólaþróunarverkefni skólans, þar sem lögð er áhersla á störf til framtíðar. Um mjög framsækna stefnu er að ræða sem verður til þess að Menntaskóli Borgarfjarðar skapi sér nýja sérstöðu, með framtíðarveri, tengingum við atvinnulíf og samfélag, lífsnámi o.fl.

Að lokum er gaman að greina frá því að búið að steypa grunninn á nýju húsnæði björgunarsveitarfélagsins og einnig er byrjað að steypa grunn fyrir nýrri byggingu í Bjargslandinu en áætlað er að byggja 90 ný íbúðir á þessu svæði á komandi árum.

Nú er farið að hausta og spennandi verkefni bíða okkar á næstu misserum hér í Borgarbyggð. Ég hvet íbúa til þess að skrá sig á póstlistann okkar til þess að fylgjast með nýjustu fréttum og tilkynningum hverju sinni. Auk þess minni ég á ábendingarhnappinn góða inn á heimasíðu Borgarbyggðar en þar gefst öllum tækifæri til þess að koma á framfæri hrós og ábendingar um það sem betur mætti fara.

Ef þið viljið panta viðtal við mig og/eða hafið einhverjar spurningar, þá bendi ég ykkur á að senda mér tölvupóst á sveitarstjori@borgarbyggd.is.

Haustkveðja til þín og þinna,

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar

 

 

 

 

 


Share: