Dagbók sveitarstjóra – Vika 3 & 4

janúar 25, 2022
Featured image for “Dagbók sveitarstjóra – Vika 3 & 4”

Kæru íbúar

Þá hefst síðasta vikan í þessum janúarmánuði. Fyrstu vikur ársins hafa farið vel af stað og ljóst er að miklar áskoranir og skemmtileg verkefni bíða okkar á komandi mánuðum.

Fyrsti sveitarstjórnarfundurinn fór að venju fram annan fimmtudag mánaðarins. Þar var margt að taka en helst ber að nefna yfirfærsla Borgarbrautar frá Vegagerðinni til Borgarbyggðar. Frá og með 1. janúar 2022 tók Borgarbyggð við vegahaldi, viðhaldi og þjónustu við veginn. Ráðist verður í miklar endurbætur á Borgarbrautinni af Vegagerðinni, Veitum og Borgarbyggð á árinu 2022. Borgarbyggð vinnur nú að losunarbókhaldi og loftlagsstefnu sveitarfélagsins, sem er til umsagnar í nefndum og ráðum sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að loftlagsstefnan verði samþykkt á vormánuðum.

Ég hvet alla sem hafa tök á að horfa á fundinn, en hægt er að gera það hér. Auk þess er hægt að lesa fundargerðina frá fundinum hér.

Stafræn stefnumótun Borgarbyggðar

Í ár er fyrirhugað að fjölga enn frekar stafrænum leiðum. Unnið verður að stafrænni stefnumótun fyrir sveitarfélagið en nú þegar hafa verið innleiddar stafrænar þjónustuleiðir sem eru til þess fallnar að flýta fyrir afgreiðslu erinda. Má þar helst nefna rafrænar undirskriftir og fjölgun rafrænna umsókna. Á árinu stefnir Borgarbyggð á því að fá vottun til rafrænna skila skjalasafna.

Ávinningurinn af því að auka stafræna þjónustu felur í sér tímasparnað fyrir íbúa og aðgengilegri þjónustu fyrir alla, hvar sem er og hvenær sem er.

Menningarviðburðir

Fyrr í mánuðinum fór fram hátíðin Föstudagurinn Dimmi. Dagskráin var svo sannarlega fjölbreytt og hentaði öllum aldurshópum og óhætt er að segja að hátíðin hafi lukkast vel. Það er gaman að geta stutt við svona frábært framtak íbúa til menningarverkefna líkt og sveitarfélagið gerði við viðburðahaldara í formi samstarfssamning.

Heilsu- og menningarstyrkur fyrir öryrkja og eldri borgara í Borgarbyggð

Borgarbyggð samþykkti árið 2020 að styrkja frístunda- og menningariðkun öryrkja og eldri borgara Borgarbyggðar með framlag í formi árskorta í íþróttamannvirki Borgarbyggðar og í Safnahúsið. Ég tel mikilvægt að minna á þennan styrk og hvetja öll þau sem eiga rétt á honum að nýta sér hann sér til heilsueflingar. Nánari upplýsingar má finna hér.

Stuðningsaðili verkefnisins Unigreen – The Green European University

Gaman er að segja frá því að Borgarbyggð hefur verið boðið að vera stuðningsaðili verkefnisins Unigreen – The Green Europena University sem er samstarfsverkefni átta landbúnaðarháskóla í Evrópu, þar á meðal Landbúnaðarháskóli Íslands. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að styðja við svona verkefni þar sem skólarnir stefna á mikið samstarf og alþjóðlegarannsóknarvinnu og – kennslu á Hvanneyri í framtíðinni. Þátttaka í Unigreen eykur enn fremur möguleika skólans til að sækja styrki til Evrópusambandsins og bjóða fleirum til náms og rannsókna við skólann. Það verður gaman að fylgjast með háskólunum okkar næstu árin

Verkefni framundan

Í vikunni stendur til að undirrita kaupsamning vegna sölu Borgarbyggðar á Borgarbraut 14 en áætlað er að breyta því húsnæði í íbúðarhúsnæði og er mikil tilhlökkun í að sjá þetta fallega húsnæði fá nýtt hlutverk í gamla bænum. Auk þess hefur samningur vegna Borgarbraut 55 verið undirritaður og hefjast framkvæmdir þar í vor með fjölbýlishús. Enn fremur standa yfir framkvæmdir við byggingu þriggja fjölbýlishúsa í Bjargslandi. Það er ánægjulegt að sjá áhugann á nýbyggingum í sveitarfélaginu, en von er á fleiri slíkum verkefnum.

Að lokum vil ég hvetja íbúa til þess að huga vel að einstaklingsbundnum smitvörnum, sem hefur reynst öflugasta vörnin við Covid-19.

 

 


Share: