Dagbók sveitarstjóra – Nýárspistill

janúar 10, 2022
Featured image for “Dagbók sveitarstjóra – Nýárspistill”

Þá er nýtt ár gengið í garð og þegar ég lít til baka yfir árið 2021 er mér þakklæti og stolt efst í huga. Þakklæti til starfsfólks Borgarbyggðar sem vinnur hörðum höndum að því að gera sveitarfélagið okkar betra og nýtir til þess hugvit sitt, þekkingu og þor – þakklæti til íbúa sveitarfélagsins, sem hafa svo sannarlega lagt lóð sín á vogaskálarnar við að létta okkur öllum lundina, með skilningi á aðstæðum og miklu frumkvæði að uppbyggingu samfélagsins og viðburðahaldi. Þetta hefur sýnt þá samstöðu sem er til staðar í sveitarfélaginu og vilja margra til að sýna samfélagslega ábyrgð.

Húsnæðismál

Góður rekstur sveitarfélagsins á árinu 2021 er eitthvað sem stendur upp úr á því ári sem er nýliðið. Það að skila jákvæðum rekstri undanfarin tvö ár er ekki sjálfsagður hlutur, sér í lagi ekki þegar litið er til þeirra hremminga sem við urðum fyrir vegna húsnæðismála og áhrifa Covid-19 á tekjuflæði sveitarfélaga. Það er jafnframt jákvætt að við höfum leyst nokkur þeirra stóru húsnæðisvandamála sem við stóðum frammi fyrir. Leikskólinn Hnoðraból opnaði formlega í nýju húsnæði á Kleppjárnsreykjum strax í upphafi ársins 2021, Aldan og áhaldahúsið munu síðan flytja í nýtt húsnæði á þessu ári og Ráðhúsið verður um mitt ár 2022 sameinað á Digranesgötu 2 og hlakka ég til að taka á móti íbúunum okkar á nýjum stað.

Áframhaldandi uppbygging

Á þessu ári höldum við ótrauð áfram og ætlum í enn frekari uppbyggingu innviða sveitarfélagsins og góðri þjónustu við íbúa, sem er forsenda fyrir því að sveitarfélagið okkur vaxi og blómstri. Á þessu ári hefst vinna við endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem framtíðarsýn verður mótuð með tilliti til allra þátta samfélagsins. Á árinu verður einnig kláruð vinnu við skipulagningu íþróttamannvirkja og farið verður í framkvæmdir á gervigrasvelli til æfinga og keppnishalds í Borgarnesi sem eykur til muna aðstöðu til knattspyrnuiðkunar og ætti að auka rými fyrir aðrar íþróttir í íþróttahúsinu. Stærsta uppbygging næstu ára er áætluð við íþróttamannvirki og Grunnskóla Borgarfjarðar, að Kleppjárnsreykjum, en stór hluti húsnæðisins þar er nú ónothæft sökum raka. Lagfæringar á Borgarbrautinni verða einnig miklar á árinu 2022, þar sem gatan verður að miklu leyti endurgerð og gangstéttar lagfærðar þar sem þörf krefur. Það er því nóg af stórum verkefnum framundn sem við ætlum að halda vel utan um og munu hafa mikla þýðingu fyrir íbúa okkar.

Íbúaþróun

Eitt það ánægjulegasta sem er að gerast í sveitarfélaginu er að íbúðarhúsnæði er að fjölga með fjölda nýbygginga og munum við á árinu sjá fleiri tilbúnar lóðir til úthlutunar, m.a. í Bjargslandi og á Hvanneyri, en á árinu verður gerð ný gata á Hvanneyri fyrir íbúðarhúsnæði. Íbúaþróunin er því jákvæð sem er mjög ánægjulegt og vonir standa til þess að þróunin verði upp á við eftir því sem fram líður.

Fyrstu vikur ársins

Eitt af mínum fyrstu verkefnum á þessu ári var að undirrita samstarfssamning við viðburðahaldara Föstudagsins Dimma. Hátíðin hefur fest sig í sessi í sveitarfélaginu undanfarin ár og verður dagskráin í ár fjölbreytt að venju. Í þessari viku mun ég síðan undirrita samning við Ljómalind en atvinnu-, markaðs- og menningarmálanefndin ákvað á síðasta ári að endurnýja samningin við fyrirtækið. Ljómalind hefur séð um upplýsingagjöf til gesta sveitarfélagsins undanfarin ár og mun einnig gera það á þessu ári.

Stærsta verkefni janúarmánaðar er að upplýsa forstöðumenn um niðurstöður fjárhagsáætlunar og skipuleggja verkefni framkvæmdaáætlunar til að öll verkefni séu vel skipulögð og með verkáætlun. Í vikunni verður einnig fyrsti sveitarstjórnarfundur ársins. Við erum í samræðum við Skorradalshrepp vegna þeirrar þjónustu sem Borgarbyggð veitir sveitarfélaginu og stefnum á að ganga til samninga um áframhaldandi þjónustu.

Samfélagið okkar er auðugt og tækifærin eru mikil. Höldum áfram að búa til jákvætt samfélag þar sem fólk þrífst vel og dafnar.


Share: