Dagbók sveitarstjóra – 7 & 8. vika

febrúar 25, 2022
Featured image for “Dagbók sveitarstjóra – 7 & 8. vika”

Kæru íbúar

Veðrið heldur áfram að hrella landsmenn en vonandi er sú sem gengur yfir landið í dag sú síðasta í bili. Líkt og kom fram á heimasíðu Borgarbyggðar í gær fylgir talsverð rigning og hlýindi með lægðinni í dag og því er mikilvægt að hreinsa vel frá niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Vegna veðurs hefur orðið nokkur seinkun á einstökum þjónustuþáttum sveitarfélagsins, eins og söfnun dýraleifa og sorphirðu. Mikið álag er á sorphirðufólki þegar færð og veður er slæmt og þökkum við ykkur fyrir sýndan skilning.

Börn og ungmenni

Mig langar að byrja á því að segja frá skemmtilegri heimsókn sem ég fékk fyrir tæpum tveimur vikum, elstu krakkarnir á leikskólanum Uglukletti komu og færðu mér bréf með beiðni um ýmis atriði er snýr að útikennslu þeirra að vetri til. Það var virkilega gaman að hitta þessa krakka og sé ég að framtíðin er björt hjá Borgarbyggð.

Ungmennaráð hefur nú loksins aftur tekið til starfa og hafa þegar verið haldnir tveir fundir. Krakkarnir eru öflug og áhugasöm og er mikilvægt fyrir okkur að hlusta á þeirra sjónarmið í öllum okkar ákvörðunum. Krakkarnir á Uglukletti verða mögulega þátttakendur í ungmennaráði þegar þau verða stærri og vonast ég til að þau sem eru í ungmennaráði láti samfélagsleg málefni sig varða þegar störfum þeirra fyrir ungmennaráð líkur.

Nú þegar öllum takmörkunum hefur verið aflétt vegna Covid-19 fá börnin okkar og ungmennin að njóta þess sem þessi ár bjóða upp á, með tilliti til félagsstarfs og skemmtana. Það á eflaust eftir að gleðja þau líkt og okkur að hægt sé að taka þátt í því sem fyrir Covid-19 taldist sjálfsagt.

Framtíðarskipulag í Brákarey

Í síðustu viku voru lagðar fram hugmyndir að næstu skrefum í skipulagsmálum í Brákarey. Byggðarráðs tók ákvörðun um að leita eftir áhugasömum aðilum til samvinnu um heildarskipulagningu og uppbyggingu eyjunnar. Hugmyndir eru uppi um að stofna jafnvel þróunarfélag sem hefði það hlutverk að vinna úr hugmyndum og íbúafundum sem haldnir hafa verið undanfarin ár. Brákarey er óslípaður demantur með ógrynni af möguleikum. Það er sýn sveitarfélagsins að eyjan muni samanstanda af blandaðri byggð og þjónustu sem verður til þess að hún iði af mannlífi. Það er mikilvægt að halda í sérkenni eyjunnar, að við íbúar upplifum Brákarey á jákvæðan hátt og að uppbyggingin þar sé falleg í takt við eyjuna og bæjarstæðið. Brákarey er náttúruperla með sterka menningarlega skírskotun til Íslendingasagna og teljum við því mikilvægt að henni verði gert hátt undir höfði. Þetta er spennandi verkefni og ég held að við séum flest sammála um að það sé kominn tími til að við sjáum Brákarey blómstra.

Framtíðaríbúabyggð í Borgarnesi

Í síðustu viku var einnig tekið til umfjöllunar framtíðaríbúabyggð í Borgarnesi, en sú umræða hefur verið um nokkurt skeið, þar sem starfsfólki hefur verið falið að skoða þá möguleika sem koma til greina í þeim efnum. Nú hefur verið ákveðið að efla til hugmyndasamkeppni um heildarskipulagningu nýrra íbúabyggðar handan Borgarvogs við Borgarnes. Um er að ræða stórt svæði sem gæti hæglega tvöfaldað íbúafjölda Borgarbyggðar. Auk fjölbreytts íbúðarhúsnæðis er gert ráð fyrir þjónustu á borð við leik- og grunnskóla. Fulltrúar Arkitektafélags Íslands komu á fund byggðarráðs í gær til að kynna þær leiðir sem hægt er að fara auk aðkomu félagsins að hugmyndasamkeppninni. Mun ég vinna áfram að verkefninu með starfsfólki skipulags- og byggingardeildar í samráði við sveitarstjórnarfulltrúa. Þegar búið er að ganga frá viðeigandi samningum og fjármálahliðina á verkefninu er áætlað að samkeppnin taki í heildina 6-7 mánuði. Ég hlakka mikið til að fylgjast með þessari vinnu og sjá loka afurðina.

Uppbygging í Bjargslandi í Borgarnesi

Á sama fundi byggðarráðs var ákveðið að endurskoða samkomulagið við Slatta ehf. um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Bjargslandi og erum við þessa dagana að skoða hvernig því verði háttað. Líklegt er að Slatti ehf. muni klára uppbyggingu fyrri áfanga verkefnisins og Borgarbyggð taki við síðari áfanga þess. Við viljum klára þetta mál á farsælan hátt, en íbúðir sem Slatti hefur byggt í Sóleyjarkletti fara fljótlega í sölu. Þessar breytingar eru tækifæri til þess að hraða uppbyggingu en áður var áætlað samkvæmt samkomulaginu. Við munum nú klára breytingar á deiliskipulagi síðari áfanga og leita leiða til að fara í gatnagerð og undirbúningi lóða. Enn fremur er í bígerð nýtt deiliskipulag á nýrri götu í Bjargslandi, sem mun liggja í framhaldi af Fjóluklettinum með allt að 23 nýjum lóðum fyrir íbúðarhús.

Húsnæðismál Öldunnar og áhaldahússins

Í upphafi mars fær sveitarfélagið afhent fyrsta hluta húsnæðisins að Sólbakka 4 í Borgarnesi. Húsnæðið mun hýsa starfsemi áhaldahússins og Öldunnar, fyrst dósamóttökuna en síðan verður farið í enn meiri endurbætur á húsnæðinu með það að markmiði að aðlaga það að  starfsemi hæfingarinnar. Þetta eru gleðitíðindi fyrir þessar stofnanir sem hafa verið í tímabundnu húsnæði frá ársbyrjun 2021.

Framtíðarskipan Safnahús Borgarfjarðar

Í næstu viku hefst vinna við framtíðarskipan Safnahús Borgarfjarðar. Markmið verkefnisins er að rýna og endurskoða starfsemi Safnahúss Borgarfjarðar og kanna samlegðaráhrif safnanna, bæði innan þeirra og við aðrar stofnanir sveitarfélagsins. Niðurstöður verða lagðar fram í tillögum að framtíðarskipan safnanna. Áætlað er að tillaga að framtíðarskipan verði borin undir byggðarráð 7. apríl nk. Vegna breytinga sem gerðar voru á Safnahúsinu í fyrra var ákveðið að fara í þessa vinnu. Við viljum finna leiðir til þess að bæta aðgengi að safninu, færa starfsemina nær þörfum íbúa og auka fjölda notenda á þjónustunni, en Safnahúsið á gríðarleg verðmæti fólgin í mjög ólíkum safnmunum. Niðurstöðurnar munu jafnframt koma með tillögur um forstöðu- og mannauðsmál Safnahússins. Þar til að ákvörðun hefur verið tekin um það hvernig forstöðu safnanna verður háttað mun ég gegna forstöðu Safnahússins, en við erum með frábært starfsfólk sem sinnir verkefnum sínum af kostgæfni.

Verkefni framundan

Í þessari og næstu viku er framkvæmdaráð, ég og sviðsstjórarnir þrír, Eiríkur Ólafsson, Flosi Sigurðsson og Hlöðver Gunnarsson, að klára yfirferð á verkferlum og samþykkja fyrir fyrstu útgáfu gæðahandbókar. Við munum einnig funda með Vegagerðinni um þjóðveginn í gegnum Borgarnes og ég fer á fyrsta fundinn í stjórn Hugheima síðan ég tók sæti í því félagi. Við erum einnig að fara í þá rýnivinnu sem nefnd er hér fyrir ofan varðandi framtíðarskipan Safnahússins og einnig stendur til að ég fari á málstofu um hvernig sveitarfélög geta stutt við nýsköpun í dreifðum byggðum. Á sveitarstjórnarfundi er síðan stefnt á stofnun byggingarnefnda fyrir Grunnskóla Borgarfjarðar, Kleppjárnsreykjum og fyrir uppbyggingu á íþróttaaðstöðu í Borgarnesi. 


Það er einlæg ósk mín að við getum í sameiningu litið björtum augum til framtíðar því tækifærin bíða okkar svo sannarlega í Borgarbyggð. Ég hvet alla íbúa til þess að lesa fundargerðir byggðarráðs og sveitarstjórnar til þess að fylgjast með stöðu verkefna og framgang þeirra hverju sinni.

Eigið góða viku framundan með rjómabollum, baunasúpu og furðuverum á ferð og flugi.

 


Share: