Breytingar í úrgangsþjónustu

janúar 30, 2023
Featured image for “Breytingar í úrgangsþjónustu”

Um áramótin tóku gildi ný lög um hringrásarhagkerfi. Markmið með lögunum er m.a. að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis, stuðla að sjálfbærri auðlindanotkun, draga úr sóun verðmæta og draga úr myndun úrgangs og draga úr urðun úrgangs.

Þessi lög hafa m.a. áhrif á skyldur sveitarfélaga í úrgangsmálum og eru sveitarfélög á Íslandi nú í óða önn að innleiða þær breytingar sem þarf til að uppfylla skilyrði laganna.

Hvað breytist?

Gjaldskrá tekur nú mið af rúmmálsleiðinni og „Borgað – þegar- hent -er“ hugmyndafræðinni. Gjald íbúa fyrir meðhöndlun úrgangs skiptist þannig í fast gjald á hverja íbúðareign og breytilegt gjald sem eru tunnugjöld í samræmi við fjölda íláta. Fasta gjaldið er ætlað að standa undir rekstri gámastöðvar og grenndarstöðva og breytilegt gjald er það gjald sem úrgangshafi mun geta haft áhrif á. Upphæðin fer eftir stærð íláts og tegund og öðrum þjónustuþáttum s.s. hirðutíðni.

Helstu breytingar sem verða á meðhöndlun úrgangs samkvæmt nýju lögunum er að ein tunna bætist við og íbúar munu flokka í eftirfarandi flokka :

  • Plastumbúðir
  • Pappír og pappi,
  • Lífúrgangur (matarleifar)
  • Blandaður úrgangur

Í nýju kerfi þarf því að flokka pappír og pappa í sér ílát og plastumbúðir í sér ílát, sem til þessa hafa hafa flokkast saman í grænu tunnuna. Þá verður ekki heimilt að flokka málma í ílát við húsvegg.

Gert er ráð fyrir að breytingar í flokkun verði innleiddar á árinu 2023.

Önnur breyting sem ný lög hafa í för með sér, er að árangur í flokkun innan sveitarfélagsins hefur áhrif á kostnað íbúa. Úrvinnslugjald er lagt á ákveðnar vörur, og rennur það til Úrvinnslusjóðs þegar varan er keypt. Þessu gjaldi er ætlað að standa undir kostnaði við meðhöndlun og úrvinnslu vörunnar þegar líftíma er lokið. Sveitarfélög sem skila endurvinnsluefni til endurvinnslu, sem bera úrvinnslugjald fá því endurgreiðslur úr sjóðnum, sem ekki fást ef efni er skilað óflokkuðu til brennslu eða urðunar.

Aðrar breytingar eru að flokkun verður samræmd á landsvísu og teknar verða upp samræmdar merkingar með það markmið að leiðarljósi að samræma flokkun og einfalda. Þannig eiga landsmenn að hafa aðgengi að sömu flokkunarmöguleikum hvar sem þeir eru staddir á landinu.

Grenndarstöðvar

Samhliða breytingum á flokkun og í samræmi við kröfur laganna, munu íbúar hafa aðgang að grenndarstöðvum þar sem málmum, gleri og textíl verður safnað. Nú stendur yfir skoðun á heppilegum svæðum og greining á nauðsynlegum fjölda grenndarstöðva. Gera má ráð fyrir að þróa þurfi þörfina á fjölda og stærð grenndarstöðva á næstu misserum.

Fyrstu skref í breytingunum

Líkt og áður hefur komið fram, eru ekki komin ný ílát og nýtt flokkunarfyrirkomulag verður innleitt síðar á árinu. Fyrstu skref í innleiðingu á nýju kerfi verða hins vegar sýnileg þegar íbúum berst álagningarseðill vegna fasteignagjalda og gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs hafa breyst í samræmi við nýja gjaldskrá.

Frá áramótum hafa ílát verið talin við hús og skráð í staðfangaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem hefur umsjón með Álagningarkerfi fasteignagjalda. Borgarbyggð í samstarfi við HMS og Advania hafa unnið að álagningunni í samræmi við þau gögn sem liggja fyrir í upphafi árs.

Álagningin gerir ráð fyrir einu íláti af hverjum af þeim flokkum sveitarfélagið gerir íbúum að flokka auk fasta gjaldsins. Ekki er heimilt að fella niður gjöld fyrir neinn flokk, jafnvel þótt íbúar hafi skilað eða afþakkað tunnu.

Næstu skref

Áætlað er að næsta skref í innleiðingu á breytingum í úrgangsmálum í Borgarbyggð sé fjölgun íláta við heimili. Í lögunum er gerð krafa um sérsöfnun úrgangs við húsvegg í fleiri flokkum en nú er. Ekki verður lengur heimilt að safna mismunandi endurvinnsluefnum í sama ílát eins og í núverandi kerfi og því er gert er ráð fyrir að öll heimili muni fá fjórðu tunnuna á árinu. Ekki liggur fyrir hvenær sú breyting verður innleidd, en það fer m.a. eftir birgðastöðu og innflutningi.

Í rýmisleið BÞHE við heimili eiga íbúar að hafa svigrúm til að stækka eða minnka, fjölga eða fækka ílátum. Þannig getur íbúi t.d. sent beiðni og óskað eftir að fá breytingar á ílátum við hús. Samhliða innleiðingu fjórðu tunnunnar, verður því boðið upp minni ílát 120 l. ílát fyrir blandaðan úrgang.

Markmiðið með lögunum er að draga úr myndun úrgangs og urðun úrgangs sértaklega. Um er að ræða mikilvæga aðgerð í loftslagmálum en um leið hafa þessi lög í för með sér miklar breytingar fyrir íbúa og sveitarfélög. Því eru öll sveitarfélög landsins að móta nýtt verklag og gera má ráð fyrir að sú vinna standi yfir allt árið og því liggur ekki fyrir endanlega hvaða möguleikar verða á útfærslu.

Kynning og fræðsla

Eins og fram hefur komið hafa lögin þegar tekið gildi og breytingar í flokkun verða innleiddar á árinu. Þátttaka íbúa er mikilvægt til að vel takist og forsenda þess er kynning og fræðsla. Því verður lögð áhersla á upplýsingagjöf til íbúa þegar fyrir liggur nánar um fyrirkomulag og tímasetningar. Mikil umræða og kynning á breytingum á sér stað á landsvísu til að tryggja að skilningur á breytingunum o skili sér til allra. Mikilvægt er að íbúar á öllu landinu taki þátt svo endurvinnsluhlutfall aukist.

Íbúar í Borgarbyggð eru því hvattir til að kynna sér málið og þær breytingar sem framundan eru og gera ráð fyrir að gera þurfi einhverjar ráðstafanir þegar nýtt ílát bætist við.


Share: