Borgfirðingahátíð 10. – 12. júní

júní 7, 2005

Borgfirðingahátíð er að ganga í garð í björtu og fallegu veðri eins og við er að búast. Hátíðin hefst á föstudag og stendur fram á sunnudagskvöld. Dagskráin er með örlítið breyttu sniði þótt ýmsir fastir liðir séu á sínum stað. Markmiðið er að bjóða upp á létta og skemmtilega dagkrá þar sem fjölskyldan geti sameinast breiðu brosi, helst hálfan annan hring. Grundvallaratriðið er þó alltaf það að maður er manns gaman og því viljum við hvetja Borgfirðinga og nærsveitunga til að taka virkan þátt í gleðskapnum.
 

Við viljum vekja sérstaka athygli á hinu árvissa Baðstofukvöldi sem að þessu sinni verður haldið í hlöðunni á Indriðastöðum í Skorradal. Þar munu hinir ástsælu Álftagerðisbræður ráða ríkjum fram eftir kvöldi.
 
Á laugardag verða ungir Borgfirðingar í stóru hlutverki á útihátíð í “nýja miðbænum í Borgarnesi” við Hyrnutorg og nágrenni. Þar verður leiktæki af öllum stærðum og gerðum í boði Samkaup Úrval og dagskrá á vegum Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi og Vinnuskólans. Síðast en ekki síst koma leikarar úr Ávaxtakörfunni í heimsókn og hápunkturinn verða síðan tónleikar með einni heitustu hljómsveit landsins um þessar mundir, “Á móti Sól.” Tónleikarnir eru hinsvegar aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal en að þeim loknum mælum við eindregið með því að fólk noti góða veðrið (sem okkur verður skaffað samkvæmt samningi) og taki fram útigrillin. Upplagt er að grilla einir og sér eða gjarnan í stærri hópum og hægt er að nota tækifærið til að bera saman uppskriftir og aðferðir. Þeim sem með engu móti geta látið bjóða sér í grill bendum við á glæsilega aðstöðu í Skallagrímsgarði nú eða veitingastaði víðs vegar um héraðið.
 
Eftir kvöldverð færist leikurinn út í Brákarey þar sem Orkuveita Reykjavíkur, Sparisjóður Mýrasýslu, Loftorka í Borgarnesi og Björgunarsveitin Brák bjóða öllum landsmönnum, ungum sem öldnum og öllum þar á milli, á hörku dansleik þar sem “Á móti Sól” leikur fyrir dansi í sundinu við gömlu fjárréttina frá kl. 21.00 – 01.00. Missið ekki af þessu fyrsta Brákarballi heimsins!!!
Þeir sem ekki hafa fengið næga útrás fyrir sýna fótafimi geta síðan slett úr klaufunum á dansleik á Búðarkletti til kl. 03.00.
 
Á sunnudagsmorgun frá kl. 09.00 verður samkvæmt venju boðið til morgunverðar í Skallagrímsgarði og þar verður Guðsþjónusta undir berum himni kl. 11.00.
Eftir hádegið er síðan kjörið tækifæri til að skoða og prófa glæsilega aðstöðu í Fossatúni, leiktæki, minigolf ofl. ofl. og enda síðan daginn á Gospeltónleikum í Borgarneskirkju.
Við hvetjum Borgfirðinga eindregið til að nota tækifærið og bjóða heim gestum þessa helgi og gleðjast með þeim all ógurlega. Alla aðra hvetjum við til að gerast gestir og njóta helgarinnar með okkur .
 
Gleðilega Borgfirðingahátíð!

Share: