Borgarbyggð í sjötta sæti á lista yfir „Sveitarfélag ársins“

nóvember 14, 2024
Featured image for “Borgarbyggð í sjötta sæti á lista yfir „Sveitarfélag ársins“”

Þetta er þriðja árið í röð sem veitt er viðurkenning fyrir „Sveitarfélag ársins“ á grundvelli viðamikillar könnunar á vegum Gallup. Svarendum hefur fjölgað ár frá ári og hafa þeir aldrei verið fleiri en að þessu sinni. Svarendur eru starfsmenn sveitarfélaga og félagsmenn í tíu stéttarfélögum á vegum BSRB. Félögin starfa um allt land, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi og stjórnun þar sem metnir eru níu þættir: stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnrétti. Sveitarfélög sem komast á lista er svo raðað eftir heildareinkunn. Stjórnun vegur þyngst en vægi jafnréttisþáttar og starfsanda einnig mikið.

Borgarbyggð er í sjötta sæti af þeim sveitarfélögum sem komast á lista og hækkar um eitt sæti á milli ára. Þeir þættir sem skora hæst hjá Borgarbyggð eru stjórnun, ánægja og stolt, sveigjanleiki í vinnu og jafnrétti. Könnunin er mikilvægt verkfæri fyrir sveitarfélög að kortleggja styrkleika og veikleika varðandi starfsaðstæður og umhverfi starfsmanna.

Smelltu hér til að sjá skýrsluna


Share: