Bókin ,,Fólkið í Skessuhorni” er komin út

október 29, 2007
Í tilefni þess að héraðsfréttablaðið Skessuhorn á Vesturlandi verður brátt 10 ára gamalt var ákveðið að minnast tímamótanna með útgáfu viðtalsbókar. Bókin Fólkið í Skessuhorni kom út um liðna helgi. Hún hefur að geyma 62 viðtöl við áhugaverða Vestlendinga.
Blaðamennirnir Fríða Björnsdóttir og Jóhanna G Harðardóttir völdu efnið og bjuggu til prentunar en höfundar efnis eru 18 blaðamenn og fréttaritarar Skessuhorns.
 
Bókin er 160 síður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Fyrsta eintak bókarinnar var afhent Einari Gíslasyni frá Lundi við stutta athöfn fyrir skömmu. Einar átti hugmyndina að nafngift blaðsins fyrir rúmum áratug síðan, en æ síðan hefur hið eftirminnilega nafn Skessuhorns stutt við útgáfuna á ýmsan hátt.
 
Í formála bókarinnar segir Magnús Magnússon, ritstjóri m.a: “Auk þess að færa tíðindi af mannlífi líðandi stundar, fyrirtækjum, félagslífi, íþróttastarfi og öðru sem gerist á Vesturlandi hefur það ætíð verið hlutverk héraðsfréttablaðsins Skessuhorns að knýja dyra hjá áhugaverðu fólki í landshlutanum, skrá ágrip af sögu þess og einstökum viðfangsefnum og birta lesendum. Í bókinni “Fólkið í Skessuhorni” eru valin viðtöl við áhugaverða einstaklinga á Vesturlandi; alþýðufólkið, félagsmálafólkið og frumherjana sem byggja landshlutann. Mannlífsviðtöl hafa ætíð verið þakklátt efni í blaðinu og því þykir nú ástæða til að safna nokkrum þessara minningarbrota saman og gera þau aðgengileg í bók. Við val á efni var leitast við að velja sögur af athyglisverðu fólki og lífi þess en láta frekar liggja milli hluta frásagnir af liðnum dægurmálum og efni pólitísks eðlis. Reynt er að láta karakter viðtalanna njóta sín og því kemur glöggt fram mismunandi rit- og frásagnarstíll þeirra blaðamanna og skrásetjara sem haft hafa viðdvöl á Skessuhorni á liðnum áratug.”
Mynd með frétt: Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns (t.h.), afhendir hér Einari Gíslasyni frá Lundi fyrsta eintak bókarinnar ,,Fólkið í Skessuhorni”. Á veggmynd á milli þeirra má sjá hið formfagra Skessuhorn í Skarðsheiði.
 
 

Share: