Blær er mættur í Borgarbyggð.

september 21, 2017
Featured image for “Blær er mættur í Borgarbyggð.”

Forvarnarefnið Vinátta með bangsann Blæ í fararbroddi hefur  nú verið innleitt í alla leikskóla í Borgarbyggð, Ugluklett, Klettaborg, Andabæ, Hnoðraból og Hraunborg. Vináttuverkefnið er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla. Barnaheill á Íslandi hefur þýtt, staðfært, framleitt og gefið efnið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku.

Vinátta  byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem skulu samofin öllu skólastarfinu auk raunhæfra verkefna fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra.

Nýverið fóru 38 starfsmenn allra leikskóla í Borgarbyggð á námskeið til að læra að vinna með efnið í skólunum. Skemmtilegt er frá því að segja að námskeiðið var  haldið á Landnámsetrinu sem stendur við Brákarsund. Sagan segir okkur að þar hafi Skallagrímur lokið rimmu sinni við fóstru Egils, Brák og kastað stein á eftir henni út í sundið. Ætla mætti að Skallagrímur hefði, á sínum yngri árum, gengið betur í samskiptum  við samferða menn sína og haft betri stjórn á tilfinningum sínum ef hann hefði verið svo heppinn að hitta fyrir bangsann Blæ og það sem hann stendur fyrir.

Þeir sem vilja lesa sér betur til um efnið geta það inn á heimasíðu barnaheilla http://www.barnaheill.is/vinatta/

 

 


Share: