Bíó í 70 ár

janúar 11, 2001

Miðvikudaginn 10. janúar s.l. var tekin í notkun ný kvikmyndasýningavél í Félagsmiðstöðinni Óðali í Borgarnesi.
Þar með verður bíómenning áfram í Borgarnesi eins og verið hefur s.l. 70 ár.

Það var glatt á hjalla þegar ný bíósýningarvél var tekin í notkun s.l. miðvikudag í félagsmiðstöðinni að viðstöddu fjölmenni. Um þessar mundir eru 70 ár frá því fyrst voru sýndar kvikmyndir í Borgarnesi og var það gert á handsnúna farandvél og fóru sýningar fram í Brákarey sem þá var verkstæði Finnboga Guðlaugssonar. Breski herinn kemur svo hingað 1940 og sýndu kvikmyndir í bragga sem þeir notuðu sem samkomuhús og stóð við Brákarbraut þar sem gamla kaupfélagsplanið er nú.
Um 1942 færast svo sýningar í Samkomuhúsið (Félagsmiðstöðina Óðal) þar sem sýnt er enn í dag.
Margir sýningarmenn hafa komið að sýningum á þessum 70 árum. Þar ber helst að nefna: Arnberg Stefánsson, Sigurjón Jóhannsson, Ólaf Guðmundsson, Jóhann Valberg Sigurjónsson, Jón B. Björnsson sem sýndi í um 35 ár, Örn Símonarson, Björn Jónsson, Sverri Vilbergsson sem sýndi í rúm 20 ár, Arinbjörn Hauksson, Ragnar Má Steinsen, Friðrik Ísleifsson, Kjartan Ásþórsson og núverandi sýningarmenn þá Einar Braga Hauksson og Axel Ásþórsson.
Það er fagnaðarefni að það verði bíó enn um ókomin ár í Borgarbyggð en fyrir lá að gamla sýningarvélin var að verða ónothæf með öllu enda áratuga gömul.
Sérstakar þakkir fá Menningarsjóður Sparisjóðs Mýrarsýslu, Menningarsjóður Borgarbyggðar, Bæjarstjórn Borgarbyggðar og Nemendafélag Grunnskóla Borgarness fyrir fjárhagslegan stuðning til þessa verks því annars hefði bíómenning að öllum líkindum lagst niður í Borgarbyggð og færst alfarið til höfuðborgarsvæðisins.


Share: